143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ágæta ræðu. Hann fór ítarlega í nokkur mál, ræddi töluvert um verðlagshækkanir og sagði að við værum að búa til keðju sem æti sjálfa sig.

Ég bendi hins vegar á að þessi hækkun sem við erum að tala um á krónutölusköttunum er upp á 2 milljarða. Ég bendi á að virðisaukaskatturinn er 100 milljarðar og hann er verðtryggður vegna þess að hann leggst á vörur og vörur hækka í þessu verðlagi.

Tekjuskattur er líka mjög stór póstur sem og tryggingagjaldið, hvort tveggja á laun. Við skulum vona að launum takist að halda í við verðlag. Þá eru þau líka verðtryggð þannig að meginhlutinn af skattstofni ríkisins, stærstur hlutinn, langstærsti hlutinn, er verðtryggður.

Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki afkoma ríkissjóðs sem ræður því hvort það er verðbólga eða ekki?