143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Afkoma ríkissjóðs hefur að mati hagfræðinga mest áhrif á verðbólgu af því að ríkissjóður getur dregið til sín peninga úr atvinnulífinu eða dælt þeim út og aukið þannig eða minnkað eftirspurn. En það er ekki hin sýnda afkoma heldur hin raunverulega afkoma ríkissjóðs sem kemur fram í ríkisreikningi og hann hefur sýnt miklu lakari afkomu en fjárlög og fjáraukalög undanfarin ár. Það er nokkuð sem við þurfum að laga. Ef við höldum áfram að reka ríkissjóð með dúndurhalla á hverju einasta ári búum við til verðbólgu og þá þarf fólk að borga meira af verðtryggðu lánunum sínum.

Þegar við erum hérna með krampakenndum hætti að reyna að skera allt niður, þ.e. núverandi hæstv. ríkisstjórn og ég ætla að vona að stjórnarandstaðan sé með okkur í því, erum við að reyna að minnka verðbólguna.