143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi inna þingmanninn sem nefndarmann í efnahags- og viðskiptanefnd eftir afdrifum sjúklingaskattsins. Það voru uppi áform í frumvarpinu sjálfu að leggja leguskatt á inniliggjandi sjúklinga á spítölum. Það er auðvitað hluti af frjálshyggjuhugmyndafræði til þess að greiða fyrir frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, en líka hluti af því að flytja skattbyrðar yfir á sjúklinga.

Nú er það þannig að á Íslandi er hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði orðin umtalsvert hærri en annars staðar á Norðurlöndunum og er að sjálfsögðu hluti af þeim aðstæðum sem fólki eru boðnar hér í landinu. Ég vil inna þingmanninn eftir bæði afdrifum þessa máls og afstöðu hans til þess.