143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagðist ekki styðja þau að sinni vegna þess að ég vil ljúka heildarendurskoðuninni á gjaldtöku af sjúklingum og á því hvernig hún á að fara fram.

Mér finnst ákaflega mikilvægt í þessari umræðu, og í raun og veru í allri umræðu, að við tölum um veröldina eins og hún er. Það er verið að taka gjöld af sjúklingum sem fara á spítala og þeir þurfa að borga mjög mikið ef þeir leggjast ekki inn. Ég þekki einfaldlega þannig dæmi. Ég þekki dæmi af manneskju sem fékk brjóstakrabbamein og þurfti að glíma við himinháa reikninga frá Landspítalanum eftir það. Þannig er veruleikinn.

Ég mundi vilja, fyrst verið er að rukka sjúklinga, bæði í gegnum skatta og einnig gegnum bein gjöld, hafa það réttlátt. Ég vil ekki að það sé rosalegur munur á sumum og öðrum. Ég mundi vilja sjá heildarendurskoðunina fara fram og þá ættum við að taka þetta.