143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar, það var hreint og skýrt. Að vísu er það þannig að breytingartillaga mín gerir ráð fyrir því að 0,1% færist frá almannatryggingahluta tryggingagjaldsins yfir í Fæðingarorlofssjóð þannig að þá yrði tekjutap hjá ríkissjóði sem því nemur. Það er í sjálfu sér í lagi eins og við í Vinstri grænum stillum tillögum okkar upp því að við erum með tekjuöflun annars staðar til að fjármagna breytingartillögu okkar.

En mér finnst sú spurning orðin áleitin ef allt um þryti, hvort hugsanlega væri hægt að ná samstöðu um að sleppa bara þessari smánarlegu 0,1% lækkun tryggingagjalds í heild sem ríkisstjórnin er að reyna að guma af, um 1 milljarður kr. af 1.000 milljarða launakostnaði í hagkerfinu, sem er innan skekkjumarka, og láta Fæðingarorlofssjóð fá þann milljarð. Það þýðir að hann getur borgað 555 millj. kr. sem þarf til að lengja fæðingarorlofið um einn mánuð á næsta ári og á 445 millj. kr. meira í eigið fé.