143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr málflutningi þeirra sem hér er vísað til, þvert á móti. Ég tel að þeir hafi fært fram ágætisrök fyrir máli sínu og ég tala nú ekki um mikilvægt framlag þeirra til málaflokksins í heild sinni. En tölurnar segja okkur að á næsta ári verði Rannís og sjóðir vistaðir þar með 2,7 milljarða af opinberum framlögum en framlögin voru sléttir 2 milljarðar fyrir tveimur árum síðan. Þetta er vissulega lægra en var á yfirstandandi ári en það sýnir skýrlega að ríkisstjórnin vill halda áfram að byggja upp þessa sjóði.

Væri rétt að taka lán til að halda uppbyggingunni áfram? Það er alveg sjónarmið og ég tel að sterk efnahagsleg rök séu fyrir því að það geti komið til greina í ákveðinn tíma, en það er akkúrat það sem við höfum verið að gera ár eftir ár og einhvern tíma verðum við að hætta að taka lán til að gera alla þá hluti sem við erum að gera. Við teljum einfaldlega að nú sé komið að því að við stöðvum skuldasöfnunina, sama í hvaða nafni hún er gerð, og fáum þannig alvöruviðspyrnu til að styðja myndarlega við þessa hluti eins og aðra á komandi árum.

Það var alveg óhjákvæmilegt að ríkissjóður væri rekinn með halla eftir fall fjármálakerfisins. Það var öllum ljóst. Það hafa safnast upp miklar skuldir vegna þess og við teljum einfaldlega að ekki sé hægt að bæta á þær skuldir. Það mun á endanum bitna, ekki bara á getu okkar til að styðja við sjóðina heldur mun mikill hallarekstur ríkissjóðs beinlínis bitna á vaxtastiginu í landinu sem er versti óvinur þeirra fyrirtækja sem gjarnan sækja stuðning í þessa sjóði.