143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er almennt séð sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi jöfnunar í ríkisrekstri. Ég vil samt skilja hann eftir með eftirfarandi hugsun: Við núverandi aðstæður þegar við blasir að það verða lítil sem engin stóriðjuáhrif og uppbyggingaráhrif á næsta ári, þegar við erum í þeirri stöðu að það er orðið mjög tæpt um jákvæðan viðskiptajöfnuð, þegar við horfum fram á óvissu um gerð kjarasamninga, þegar við horfum fram á að ríkið ætlar fyrir fram að skammta sér alla spáða verðhækkun á næsta ári og hækka gjaldskrár fyrir fram og kynda þar með undir verðbólguþrýsting, eru ekki viðvörunarljósin að teiknast upp? Er ekki skynsamlegt að setja fjárfestingar í tækniþróun og innri vöxt í forgang til að auka getu okkar til að skapa útflutningstekjur á næstu árum? Og er ekki full ástæða til að endurhugsa suma þætti, þar á meðal þá ákvörðun sem tekin hefur verið um að verðbæta til fulls allar gjaldskrár? (Forseti hringir.) Er ekki full ástæða núna þegar við sjáum hættumerkin hrannast upp varðandi atvinnuvegafjárfestinguna að hugsa myndina upp á nýtt?