143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er að teiknast upp að þess sé ekki að vænta að stakar stórar fjárfestingar lyfti upp fjárfestingarstiginu í landinu tel ég að endurmeta eigi það hvernig við getum eftir sem áður reynt að halda áfram að ná því upp, með hvaða tiltækum ráðum sem þar eru vænlegust. Ég held að reynslan hafi þegar sýnt okkur að við eigum vaxtargreinar í atvinnulífinu sem geta tekið hratt við sér. Þá er verðmætt að styðja við þær, jafnvel þótt þröngt sé í ári.

Varðandi hagvaxtartölurnar neyðist ég því miður — ég hef ekki ánægju af því að vera hér boðberi einhverra slæmra tíðinda — til að benda á að að hluta til er hér á ferðinni hliðrun milli ára vegna þess að árið 2012 hefur verið metið niður. Þar af leiðandi lítur þetta út fyrir að vera meiri vöxtur en ef við lítum yfir lengra tímabil erum við ekki miklu betur sett en við gerðum ráð fyrir. Það lítur einfaldlega út fyrir að hagvöxturinn sé meiri eftir því sem útkoman á árinu 2012 (Forseti hringir.) var slakari sem þessar mælingar eru bornar saman við.