143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma hingað til umræðunnar og bregðast við þeim spurningum sem ég hafði um áhrif Helguvíkur á forsendur frumvarpsins sem hér á að ræða á morgun. Ég vona að ráðherrann reynist sannspár um að merki séu um að viðskiptakjör okkar fari batnandi. Ekki mun af veita því þau hafa ekki verið verri áratugum saman og það er grafalvarleg staða.

Það er rétt að nokkuð betri tölur hafa komið fram um hagvöxt á fyrstu níu mánuðum en við búum nú við það í okkar hagtölugerð að verið er að leiðrétta hagvaxtartölur jafnvel mörg ár aftur í tímann og kannski erfitt á það að treysta. Það er mikilvægt að við byggjum fjárlögin á þeim bestu upplýsingum sem við höfum á hverjum tíma. Nú er það einfaldlega þannig að ekki eru áform um að reisa þetta álver að óbreyttu og það er inni í forsendum frumvarpsins. Ég er sammála hæstv. ráðherra um nauðsyn þess að nefndin fari yfir þau áhrif á milli umræðna en ég teldi að það væri góður bragur á því ef ráðherrann gæti haft atbeina að því að ráðuneyti hans tæki a.m.k. saman fyrir umræðuna á morgun minnisblað þar sem komi fram hvaða tekjur voru áætlaðar vegna álversins í Helguvík og hversu stóran hlut það átti að leika í hagvextinum á næsta ári og síðan hvaða áhrif það hefur á áætlunina fyrir 2015 og 2016. Sömuleiðis, ef ráðherrann vill, þá jákvæðu þætti sem gætu legið í betri árangri á fyrstu níu mánuðum ársins en ráð var fyrir gert. Menn hefðu þá þær upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu og úr þjóðhagsspánni frá Hagstofunni þegar farið er í efnisumræðu um fjárlögin á morgun.

Ég ætla ekki að vera með þau leiðindi að segja að þetta séu það stór frávik að kalla þurfi til nefndarfundar fyrir umræðuna en ég held að það væri gagn að því fyrir alþingismenn alla að hafa þessar (Forseti hringir.) tölur fyrir framan sig þegar þeir ræða fjárlögin á morgun.