143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Það fer nú alltaf svo fyrir mér þegar ég á að fjalla um fjárlagafrumvarp, og núna ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps, þá fallast mér nánast hendur vegna þess að framsetningin er kannski ekki mjög árennileg. Ég held ég hafi fengið jákvæðar undirtektir við það að hugsanlega væri hægt, og mér skilst að svo sé, að setja þetta fram á notendavænna formi en gert er. En ég hef sem betur fer gaman af púsluspilum, krossgátum og því um líku þannig að mér leiðist ekkert voðalega mikið þegar ég er að reyna að púsla þessu saman og finna út hvað á við hvað í þessu öllu saman.

En nú fjöllum við sem sagt um tekjuhlið frumvarpsins en það hlýtur náttúrlega að koma gjöldunum líka eitthvað við. Ég ætla aðallega að fjalla um gjaldskrárhækkanir eða verðlagshækkanir í frumvarpinu. Síðan ætla ég að fjalla um endurgreiðslur vegna þróunarverkefna og nýsköpunarverkefna. Ég ætla að tala eitthvað um skráningargjöld og útvarpsgjöld, að kannski mætti setja það undir markaða tekjustofna. Þetta er það sem ég mun helst beina máli mínu að í þessari umfjöllun.

Hvað varðar gjaldskrárhækkanir sem hafa verið ræddar, þingmenn hafa komið inn á það í ræðum sínum hér í dag, þá er það sjónarmið vissulega rétt að það er vont og erfitt í því verðbólguþjóðfélagi sem við búum í ef bensíngjöld eða þau gjöld sem hækka með verðlagshækkunum, sem myndast náttúrlega sem tekjur inn í ríkissjóð, hækka ekki með verðlagi. Auðvitað getur það skapað erfiðleika og getur endað í því ef ekki er aðgát höfð að hækkanir á þeim gjöldum dragist aftur úr og svo standi menn allt í einu frammi fyrir því að þau hafi ekki hækkað og þar með sé komið mikið gap. Það mun reyndar hafa verið svo að þegar þurfti aldeilis að ráðast í og taka alvarlega á ríkisfjármálum eftir árin 2008 og 2009 og þar á eftir hafi verið einhver slaki í þessu.

Á hinn bóginn mætti náttúrlega hugsa sér, ef það er náttúrulögmál að þessi gjöld eigi öll að hækka með verðlagi á hverju ári, hvort það ætti þá ekki bara að vera vísitölubundið. Á þetta þá ekki að vera bundið við einhverja vísitölu, neysluverðsvísitölu eða eitthvað slíkt? Maður getur spurt sig að því.

Nú eru kjarasamningar fram undan hjá okkur og þá koma atvinnurekendur fram, Seðlabankinn og þeir sem mæla fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og allir vara við of miklum kauphækkunum. Varið ykkur nú, ekki hækka kaup í landinu því það þýðir bara nýtt verðbólguskot. Samt sem áður tel ég að það séu tvö atriði sem þarf að athuga. Það alvarlegasta sem við eigum við að etja í efnahagsmálum eru annars vegar gjaldeyrishöftin og hins vegar lág laun fólks í landinu. Þetta tvennt þarf að laga. Við þurfum að finna út hvernig við getum aflétt gjaldeyrishöftunum og síðan þurfum við að finna út hvernig hægt er að hækka kaup við fólkið í landinu án þess að skriða fari af stað. Ég neita þeim málflutningi sem hafður er uppi að launahækkunum sé helst um að kenna að verðlag í landinu hækki.

Þegar Reykjavíkurborg hafði samþykkt fyrir nokkrum vikum ýmsar gjaldskrárhækkanir urðu mikil mótmæli og Reykjavíkurborg var næstum því ásökuð um að ætlunin væri að ýta verðbólguhjólinu á fleygiferð af stað. Hvað gerir Reykjavíkurborg þá, þeir sem stjórna þar? Þeir hugsa sig um og draga þær gjaldskrárhækkanir allar til baka til að leggja sitt lóð á þær vogarskálar að hér megi nást kjarasamningar fólkinu í landinu til hagsbóta án þess að verðbólguhjólið fari á fulla verð. Önnur sveitarfélög hafa farið að fordæmi Reykjavíkurborgar mörg hver í þessum efnum og dregið til baka gjaldskrárhækkanir sínar. Mér er sagt að í hækkun neysluverðsvísitölunnar geti gjaldskrárhækkanir hjá sveitarfélögum vegið upp undir 12% og hjá ríkinu önnur 12%. Ef sveitarfélögin drægju allt sitt til baka væri búið að draga 12% úr verðbólguhættunni. Ef ríkið færi í þá vegferð líka væru komin önnur 12%. Þá værum við komin þarna með fimmtung, jafnvel fjórðung, sem hið opinbera eins og það er allt saman komið, þ.e. ríki og sveitarfélög, hefði lagt sem lóð á vogarskálina til að leggja sitt af mörkum svo að kjarasamningar náist í landinu án þess að verðbólguhjólið færi af stað. Þess vegna tel ég að núna eigi ríkisvaldið að hugsa sig mjög alvarlega um hvort ekki sé rétt að leggja þetta lóð á vogarskálina og þá væri að bíða eftir því hvað Samtök atvinnulífsins og atvinnurekendur í landinu gerðu þegar aðrir hafa lagt sitt af mörkum á þennan hátt. Ég verð að segja að ég gef lítið fyrir atvinnuveg í landinu sem kvartar alltaf yfir því að þurfa að borga kaup, því að það færi lítið fyrir fyrirtækjunum í landinu ef fólkið vildi ekki vinna fyrir þau. Við sjáum dæmi um það. Talað er um að verslun sé í miklu lágmarki. Af hverju er verslun í lágmarki? Það er af því að fólk hefur ekki peninga, það á ekki peninga til að kaupa í búðum. Eitt okkar alvarlegasta vandamál er hvað kaupið í landinu er lágt. Þess vegna segi ég enn og aftur, ég tel að nú eigi að líta mjög alvarlega til þess að hækka ekki þau gjöld eins og lagt er upp með í frumvarpinu.

Þá langar mig að koma að endurgreiðslum til þróunarverkefna. Ég ætla að nefna grein sem nokkrum sinnum hefur reyndar verið vitnað til hér í dag, fróðlega grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag eftir Davíð Lúðvíksson og Hauk Alfreðsson. Þeir taka þar mið af fyrirtæki — þeir nefna reyndar ekki fyrirtækið en ég gæti best trúað að það væri Marel, þið hafið það ekki eftir mér — en þeir nefna fyrirtæki og segja að á árunum 2006–2013 sé stuðningur og niðurgreiðsla til þessa fyrirtækis — talað er um eitt fyrirtæki — 175,6 milljónir. Tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu á sama tíma eru 392,3 milljónir. Á þeim sex eða sjö árum, 2006–2013, eru 2.016 millj. kr. í plús sem ríkissjóður hefur haft af þessu. Og það er alveg augljóst að það margborgar sig fyrir ríkissjóð, fyrir okkur öll, að byggja upp atvinnulíf í landinu. Það er alveg sama hvað sagt er þá höfum við byggt á frumatvinnuvegunum og ég ætla ekki að gera lítið úr frumatvinnuvegum þessa lands. Sjávarútvegur hér er ábyggilega flottasti sjávarútvegur í heimi og ég ætla ekki að gera lítið úr því. En það er nauðsynlegt fyrir okkur að byggja upp eitthvað annað til framtíðar. Við höfum verið með sjávarútveginn, síðan átti að renna stoðum undir atvinnulífið fyrir mörgum árum og menn fóru í álframleiðslu og síðan þá sáu menn ekkert annað en ál og aftur ál. Nú eru fréttir um að vonarneistinn sem margt fólk hafði um uppbyggingu í Helguvík sé væntanlega sleginn af. Það er náttúrlega ekkert annað en það sem var út af fyrir sig búið að segja, að mjög líklega yrði það slegið af. Einhver sagði í umræðunni áðan að ástæðan fyrir því að ekki hefði verið farið af stað miklu fyrr væri sú að ekki hafi náðst samkomulag um verð á rafmagni. Auðvitað hlýtur það að vera frumforsenda fyrir því að samkomulag náist, að sá sem selur telji sig hafa einhvern ávinning af því að selja. Það var bara ágreiningur um verð. Það er aldeilis undirstaða þess að einhver selji eitthvað að hann fái það verð fyrir sem hann þarf til að halda áfram að vera til. Ef maður borgar ekki það sem til þarf verður fyrirtækið ekki til á morgun. Þess vegna verða þeir sem kaupa rafmagn af einhverju fyrirtæki að vera tilbúnir til að borga það sem til þarf til að fyrirtækið geti verið til á morgun og helst stækkað og gert eitthvað annað.

Virðulegi forseti. Mér finnst það kannski ekki blasa við en mér finnst aðeins í það skína sem er að gerast hérna þessa dagana, eins og í fjáraukalögunum núna, þegar fjárlaganefnd dregur til baka þær áætlanir sem voru uppi um að skerða Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Ég hef sannast að segja á tilfinningunni, virðulegur forseti, að það sé að renna upp fyrir ríkisstjórn og þeim sem eru við stjórnvölinn núna hvað þetta skiptir máli. Ég held að það sé rétt og ég hafði alveg sömu tilfinningu og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lýsti í dag að þegar fjárfestingaráætlunin var samþykkt voru sumir hálfbrosandi og sögðu: Þetta eru meiri blábjánarnir að samþykkja þetta. Ég held að það sé bara að renna upp fyrir fólki núna að þetta er vaxtarbroddurinn í þjóðfélaginu. Þetta er okkar von og ef við styðjum ekki við hana þá er illa farið fyrir okkur.

Hvað varðar breytingartillögu frá nefndinni, efnahags- og viðskiptanefnd, er tillaga um að hægt sé að draga frá 20%, lækka ekki skattfrádráttinn úr 20% niður í 15%, en hins vegar á að lækka hámark sem hægt er að greiða. Það held ég að sé mjög óskynsamlegt einmitt vegna þess að það yrðu hin stærri fyrirtæki sem hugsanlega mundu nota — ég vil segja, virðulegi forseti, ég tel ekki óskynsamlegt að halda skattfrádrættinum, þeim sem hann var, en ég tel óskynsamlegt að hreyfa við þessu yfirleitt og það yrðu væntanlega stærri fyrirtækin sem mundu nota hærri styrki og það eru einmitt þau fyrirtæki sem aðrir vilja kannski kaupa og sem mesta hættan er á að missa úr landi. Við verðum líka að hugsa um það að missa þau fyrirtæki ekki úr landi sem hafa byggst hér upp.

Það sem stendur í áliti meiri hluta nefndarinnar vekur mér nokkra forvitni, þ.e. um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með leyfi forseta:

„Kom það sjónarmið fram að með henni væru fyrirtækjum send röng skilaboð …“ — Sem er rétt. Síðan kemur: „Þá kom það mat fram að áhrif gildandi ákvæða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á greiðslustöðu ríkissjóðs væru í raun jákvæð …“ — Áður var bent á það. Og svo að lokum þetta, virðulegi forseti, sem mig langar að fá skýringu á: „Var jafnframt dregið í efa að lækkunin mundi skila ríkissjóði þeim tekjum sem áætlað væri á árinu 2015.“

Ég átta mig ekki alveg á hvað þetta þýðir. Er það út af því að svo mörg fyrirtæki eru búin að sækja um? Ef það er svo er það væntanlega ástæðan fyrir því að þessar breytingar voru gerðar á fjáraukalögunum í dag, þ.e. svo mörg fyrirtæki voru búin að sækja um að ekki var hægt að hætta við. Það er svo mikill vilji í landinu til að fara í nýsköpun og þróun að ríkisstjórnin getur ekki skorið niður á þessa vaxtarbrodda eins og hún helst vildi. Það er bara það sem er.

Síðan langar mig að tala um skráningargjöldin í háskólann, og farið hefur verið yfir það. Það er eitt púsluspilið. Það kemur ekki fram þegar maður les saman tekjufrumvarpið og fjárlagafrumvarpið en í raun mun hækkun á innritunargjöldunum verða yfir 200 milljónir en aðeins 39 milljónir eiga að renna til háskólans. Meira að segja er sagt að þær 39 milljónir séu vegna 3.300 nýrra ársnemenda, svo ekki er gagnsæinu fyrir að fara þar. En þetta kemur aðeins inn í umræðuna sem var hérna líka fyrr í dag um markaða tekjustofna. Menn taka útvarpsgjöldin, þeir taka skráningargjöld inn í háskólana, taka markaða tekjustofna, tóku fjarskiptasjóðinn í morgun og segja: Við setjum þetta bara allt í ríkissjóð. En leggja samt sem áður á nefskatt, skráningargjöld og allt þetta. Leggjum þetta á. Og þeir virðast gera það undir því yfirskyni að það sé umræða einhvers staðar, umræða í fjárlaganefnd um að við hættum að nota markaða tekjustofna. Ég get alveg fallist á það, virðulegi forseti, að full ástæða er til að skoða markaða tekjustofna. En ekki er hægt að gera það allt í miðjum klíðum, leggja á innritunargjöld, leggja á útvarpsgjald og setja svo allt inn í ríkissjóð. Ef við ætlum að afnema markaða tekjustofna og gera hlutina öðruvísi, sem ég held og endurtek að gæti verið skynsamlegt, þá verður að gera það áður en byrjað er að sullumalla með þá hluti.

En ég verð mér til skemmtunar, virðulegi forseti, að lesa setningu sem ég varð vör við þegar ég skoðaði útvarpsgjaldið. Mér finnst það lýsa svolítið afstöðu ríkisstjórnarinnar og þá kannski ekki síst til fjárfestingaráætlunarinnar og öllum þeim áformum sem voru uppi, vegna þess að það voru áform um hvernig mætti byggja upp í framtíðinni. Og þá stendur hérna: „Sem liður í ráðstöfunum til að falla frá nýjum og óhöfnum útgjöldum er í frumvarpinu gert ráð fyrir …“ — Það eru sem sagt sérstakar ráðstafanir uppi til að fara í gegnum og leita að því hvað þau ætluðu að hækka. Hvað ætluðum við að hækka þarna? Hvað ætluðum við að gera þarna? Það eru sem sagt settar upp sérstakar ráðstafanir í Stjórnarráðinu til að finna út hvað þurfi nú að taka upp.