143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ágæta ræðu. Hann ræddi reyndar ansi mikið um RÚV sem við erum ekkert að ræða um og er ekkert í þessu frumvarpi. Ég vil hins vegar lýsa því yfir að ég hef lagt til að RÚV verði selt, ég hef svo mikla trú á starfsfólkinu að það geti rekið það ágætlega sem einkastöð.

En talandi um það sem hv. þingmaður spurði aðallega um, með prinsippið og að ég sé að hverfa frá prinsippum. Það er svo að Sjúkratryggingar Íslands hafa starfað, líka þegar hv. þingmaður var hæstv. heilbrigðisráðherra. Þá starfaði stofnunin með reglugerðarheimild frá ráðherra. Þá hefði hv. þingmanni verið í lófa lagið að breyta reglunum og setja lög um það hvernig þetta ætti að starfa. Þegar menn hugðust leggja skatta á innlagnir og legugjöld kom í ljós að langskynsamlegast var að fara í gegnum Sjúkratryggingar Íslands því að þar er reglugerðarheimildin til staðar, þar er allt kerfið til staðar og þar er líka möguleiki á því að hafa lægri gjöld fyrir öryrkja og aldraða. Þannig að mér fannst það vera ágætislausn.

Ég er hins vegar formaður í nefnd sem er að vinna að greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sem tekur á þessu öllu saman og vonandi sem fyrst. Það er reyndar ákveðin töf á því núna, ég ætla ekki að geta um hvers vegna, og þá verður þetta leyst allt þannig. En ég ætla að koma inn á þetta á eftir í ræðunni, ég ætla að loka þessari umræðu með ræðu þar sem ég kem inn á ýmsa þætti og þá mun ég ræða sérstaklega um innlagnir á spítala, alveg sérstaklega, hafa góðan kafla um það því að það er dálítill misskilningur í gangi.

Hv. þingmaður talaði dálítið leiðinlega um „útblásinn af prinsippum“ og því um líkt, mér líkar ekki svoleiðis orðalag. Ég vildi heldur að umræðan væri dálítið málefnalegri. Nú, hvort Framsóknarflokkurinn var hræddur við Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma — ég get ekki um það dæmt o.s.frv. Hv. þingmaður ræddi ýmislegt annað en það frumvarp sem við ræðum.