143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi nú gjarnan vera málefnalegur en ég var bara einfaldlega að lýsa því hvernig hv. þingmaður kom mér fyrir sjónir, uppblásinn og útblásinn af ákafa og talsverðu lofti þegar hann hafði uppi stór orð um ákvarðanir sem teknar voru með reglugerðum. Ég er alveg sammála honum, það er margt sem hefur tíðkast í þeim efnum og ég lagði áherslu á það undir lokin að að verulegu leyti er ég að tala um það sem tíðkast hefur í íslenskri stjórnsýslu og íslenskri pólitík. Hvað varðar markaða tekjustofna, hvað varðar reglugerðarheimildir o.s.frv., en ég var einfaldlega að benda á að sá sem hafi talað harðast gegn slíku væri hv. þm. Pétur H. Blöndal og þess vegna kæmi mér það spánskt fyrir sjónir að heyra hann nú í ræðustól tala fyrir því sem mér fannst hann áður vera að fordæma.

En grundvallaratriðið í því sem ég er að gagnrýna hér eru hins vegar gjöldin sem á að setja á fólk sem lagt er veikt inn á sjúkrahús — og hv. þingmaður vék að legugjöldunum sem núna heita komugjöld og eru að breyta um form vegna þess að það á að fara í gegnum einhver önnur kerfi að gera það en prinsippið stendur eftir sem áður. Það á að fara að rukka fólk sem er lagt veikt inn á sjúkrahús og það er grundvallarbreyting sem hér er að verða á. Ég leyfi mér líka að vísa í skýrslu ágæta sem sérfræðingur á sviði heilbrigðismála, Ingimar Einarsson, vann á undanförnum mánuðum og var birt í sumar sem sýnir að kostnaðarþátttaka sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu hefur farið vaxandi. Hann horfði þar frá einhverjum árum upp úr aldamótum og það er áhyggjuefni, ef á að fara að auka enn á þetta.