143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér varð orða vant — og gerist það ekki oft — þegar ég heyrði hjá hv. þingmanni að hv. Pétur H. Blöndal, framsögumaður málsins, væri hér að leggja til lagaheimildir til ráðherra til þess að leggja á gjöld í reglugerðum. Það hlýtur auðvitað að vekja okkur umtalsverðar áhyggjur vegna þess að um prinsippmál er að ræða. Það er verið að fara í sjúklingaskatt á inniliggjandi sjúklinga á spítala. Það er kannski síðasta vígið í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að gjaldtökugleðinni, sem er meiri hér en nokkurs staðar annars staðar í Norður-Evrópu, á sjúklinga. Það skapar þá hættu, geri ég ráð fyrir, að ekki sé bara verið að leggja mörg hundruð milljónir króna á sjúklinga um leið og verið er að lækka skattana á hátekjufólki heldur geti ráðherra með tiltölulega einföldum hætti hækkað þau gjöld frá einu ári til annars án þess að fara þurfi inn með lagabreytingar til þess að sækja það, að verið sé að opna glufu sem sé þannig hægt að auka ár frá ári.

Ég spyr hv. þingmann bæði hversu há þessi innritunargjöld eigi að verða og hvort það sé þannig að ráðherrann geti síðan ár frá ári með einföldum reglugerðarbreytingum hækkað þessa skatta á landsmenn án þess að þurfa að leita eftir lagabreytingum í því efni.