143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið forseta forláts á að maður klóri sér í höfðinu yfir þessu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson fari með rétt mál. Það getur ekki átt sér stað að hér sé framsögumaður þingmáls á Alþingi Íslendinga að mæla fyrir gjöldum á íslenska ríkisborgara sem forsendum fjárlaga án þess að vita hver þau gjöld eru. Það getur bara ekki verið. Hér er stjórnarmeirihluti og það fara fram kosningar til Alþingis og stjórnarmeirihluta er algjörlega frjálst að leggja gjöld á borgara landsins en þau verða að vera algjörlega skýr og það verður að festa þau í lög, mæla fyrir þeim í þinginu, gera grein fyrir þeim og eiga hina pólitísku orðræðu og svo lögfestir meiri hlutinn það sem meiri hlutinn vill lögfesta. En ég trúi þessi ekki og treysti á að hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðrétti þessar missagnir. Ég trúi ekki öðru en að það liggi fyrir hvað sjúklingurinn á að borga í gjald fyrir að leggjast inn á spítalann.

Ég tala nú ekki um vegna þess að þetta er einfaldlega svið í íslensku samfélagi þar sem um áratugi hefur verið sátt um að leggja ekki skatta á fólk, fársjúkt fólk sem er að leggjast inn á spítala. Ég trúi því ekki að menn ætli að hefja skatttöku af þessu veika fólki með samþykkt í þinginu án þess að það liggi fyrir hvað vesalings fólkið á að borga. Hvernig eiga þingmenn að taka afstöðu til þess hvort þetta sé sanngjarnt eða ósanngjarnt ef það liggur ekki fyrir hvort það eru 10 þús. kr. eða 100 þús. kr. eða hvaða fjárhæð er um að ræða?

Virðulegur forseti. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur og ég vona að hann verði leiðréttur sem allra fyrst.