143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal, framsögumaður nefndar um þetta mál, komi og skýri fyrir okkur hvað hann á við með ummælum sínum sem höfð eru eftir honum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 10. desember. Ég er sammála hv. þingmanni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að þetta er grafalvarlegt mál, ekki bara sem prinsippmál og kerfisbreyting sem við þurfum að ræða mjög rækilega heldur líka hvað varðar hina óljósu þætti í málinu. Reyndar er allt þetta frumvarp eins ruglingslegt og ógagnsætt og verða má og það kom fram við þessa umræðu að það væri einhver misskilningur hjá mér að vera að tala um Ríkisútvarpið í þessu samhengi. Þá er það mikill misskilningur að setja yfirleitt heilan kafla um það í greinargerð með þessu frumvarpi. Það er fjallað um Ríkisútvarpið á hálfri síðu á bls. 10 í greinargerð með frumvarpinu.

Reyndar er textinn svolítið í ætt við krossgátu. Maður kemst svona tvær, þrjár línur í einu og reynir að skilja þær og heldur svo áfram næstu fjórar, fimm línurnar og er orðinn alveg kolruglaður og byrjar þá aftur og fær eiginlega ekki nokkurn einasta botn í það. En flutningsmaðurinn segir að þetta mál sé ekki til, það sé ekkert í frumvarpinu en það er samt sem áður hérna. Þetta er nú allt gagnsæið. Ég bíð því bara spenntur eftir skýringartextum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ætlar að flytja þinginu þegar málið kemur hér á lokastig í umræðunni, þó að mér bjóði í grun að ræða hans muni kalla á enn frekari andsvör og ákall í nánari skýringar. (Forseti hringir.)