143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst svolítið merkilegt eða mjög eftirtektarvert við þessa umræðu að það eru tiltölulega fá atriði sem flest okkar staðnæmast við. Það bendir í mínum huga til þess að hægt væri, ef vilji væri til, að afmarka þá helstu gagnrýni sem við höfum á þetta frumvarp og kannski að reyna að koma til móts við einhver sjónarmið. Það er nú væntanlega ekki auðhlaupið að því vegna þess að kannski erum við í grunninn bara ósammála pólitískt, við stjórnarandstæðingar annars vegar, stjórnarminnihlutinn, og þeir sem leggja fram þessi frumvörp.

Ég er mjög sammála hv. þingmanni um það sem hún nefndi varðandi gjaldskrárhækkanirnar. Síðan nefndi hún að ríkið ætti að reyna að spara sér þær og draga úr á öðrum sviðum eða hækka aðrar tekjur.

Hv. þingmaður minntist á tónlist. Getur það verið rétt hjá mér, virðulegi forseti, ég ætla samt að beina þessari spurningu til hv. þingmanns, að þessi nýju verkefni og þessi nýsköpun, Þróunarsjóður, tónlistin, styrkir til kvikmyndagerðar og það allt, (Forseti hringir.) hafi hlutfallslega miklu meiri áhrif úti á landi en hérna á höfuðborgarsvæðinu?