143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:14]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar.

Já, ég held að það sé bara mikið til í því. Ég náði ekki að koma inn á Ríkisútvarpið hérna áðan. Ég hef miklar áhyggjur af því á hvaða vegferð menn eru þar varðandi uppsagnir og það að taka af stofnuninni 500 milljónir. Það er grafalvarlegt mál. Það er ekki bara það að Ríkisútvarpið hafi fylgt okkur sem þjóð frá 1930, verið félagi okkar og verið fræðandi menningarlega, með alþýðumenningu og allt það sem Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir frá 1930 og vaxið og dafnað með þjóðinni, það hefur í raun og veru verið límið hjá þjóðinni. Ég held að fyrir fólki á landsbyggðinni, ef ég nefni það sérstaklega, sé Ríkisútvarpið bara eins og einn af fjölskyldunni.

Ég þekki góða konu vestur á Þingeyri sem segir að á áramótunum þegar ákveðinn útvarpsmaður verði búinn að fá reisupassann muni hún aldrei kveikja á þessu Ríkisútvarpi oftar. Það er svolítið einlægt en fólk er miður sín, það fólk sem notið hefur þess að hafa Ríkisútvarpið sem félaga sinn er miður sín yfir hvernig farið hefur. Og öll sú breidd í tónlist sem verið hefur í Ríkisútvarpinu er ekki í boði í öðrum fjölmiðlum.

Hvað er verið að gera núna með því að brjóta allar þessar stoðir niður? Og tónlistin sem ungir tónlistarmenn hafa fengið leikna í Ríkisútvarpinu sem aðrar stöðvar hafa ekki opnað á — þessir tónlistarmenn spjara sig, verða atvinnumenn og skapa þjóðinni mikinn gjaldeyri, eins og t.d. Björk, Sigur Rós og aðrir. Þessi tónlistarmenn voru ekki spilaðir á öðrum stöðvum en Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Svo við skulum ekki gleyma hvað Ríkisútvarpið hefur gert fyrir okkur sem þjóð og skapað okkur miklar tekjur óbeint.