143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fara í heildarmyndina. Umræðan snýst mikið um nýsköpunina. Áður en ég sný mér nýsköpuninni sem hv. þingmaður ræddi mikið áðan, langar mig að ræða fjármálastefnuna. Það er verið að snúa hér af leið skattahækkana, það er verið að lækka skatta, og það er verið að skera niður, það er verið að stefna að afgangi, að hallalausum fjárlögum til að borga niður gríðar-, gríðarlega háar skuldir og mikla vexti. Það þarf að taka á og það þurfa allir að taka á.

Það er hins vegar talað eins og við séum ekkert að leggja í nýsköpun og ekkert að leggja til rannsókna og þróunar. Þannig er það einfaldlega ekki og það kemur ágætlega fram, bæði í áliti meiri hluta nefndar og í fjárlögunum, sem hæstv. fjármálaráðherra fór mjög vel yfir fyrr í dag. Af því að ég þarf að hlusta á að nánast sé verið að skera allt niður í rannsóknum, þróun og nýsköpun vil ég koma hér og árétta að það er alls ekki staðan.

Á bls. 275, með leyfi forseta, fara samkvæmt Rannís 18,2 milljónir í rannsóknir og þróun. Það kemur síðan mjög vel fram í meirihlutaáliti að (Forseti hringir.) verið er að hverfa frá lækkun úr 20 í 15%.