143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hafa orðið mjög miklar breytingar á heilbrigðisþjónustunni undanfarið, sérstaklega í uppskurðum og innlögnum. Það er orðið miklu sjaldgæfara að fólk sé lagt inn á spítala í dag heldur en var. En ég fullyrði að það er ekkert minna veikt og það borgar bæði fyrir aðgerðina og allar rannsóknir og allt sem tengist þessu, meira að segja fyrir sérfræðilækninn og hjúkrunina. Ég held að við verðum að horfa til þeirra breytinga sem hafa orðið í læknavísindunum. Við verðum að gera það, annars búum við til misræmi. Maður sem er lagður inn af því að hann fer í holskurð er örugglega veikur en hann er ekkert minna veikur en sá sem fer í kviðsjáraðgerð. Hann þarf ekki að borga neitt. En hinn maðurinn eða láglaunakonan sem fer í kviðsjáraðgerð og er ekki lögð inn þarf að borga allt.