143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í staðinn fyrir að horfa á stærðir fyrirtækja eða gerðir fyrirtækja að við horfum á þetta eftir stærðum verkefnanna af því að til þess að sækja um þessa endurgreiðslu eða niðurgreiðslu þarf að skilgreina nýtt verkefni og sýna fram á nýsköpunargildið. Þetta er strangt ferli. Þegar það hefur verið gert eru stærðir verkefnanna auðvitað mismunandi, hvort sem það er verkefni sem búið er til nýtt sprotafyrirtæki utan um eða stórt verkefni sem er samstarfsverkefni stærri fyrirtæki ásamt vísindamönnum sem koma annars staðar frá.

Það sem ég óttast við þessa breytingu er að verið er að veikja kerfi sem var ekkert, að mínu mati, komið almennilega á legg. Þetta getur þýtt að við verðum ekki lengur samkeppnishæf um stærri verkefnin. Það er gríðarlega alvarlegt mál vegna þess (Forseti hringir.) að oft eru það mannaflsfreku verkin sem veita mörg eða fleiri störf og geta skilað hraðar árangri og störfum.