143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar aðeins að inna hana eftir skoðun hennar á þeim verðlagshækkunum sem felast í þessu frumvarpi, þ.e. uppfærslu skatta og gjalda. Nú hafa aðilar vinnumarkaðarins hvatt stjórnvöld til að halda að sér höndum varðandi verðlagshækkanir því að það gæti haft áhrif á gerð kjarasamninga sem eru nú opnir og komnir til ríkissáttasemjara. Reykjavíkurborg hefur gengið fram með góðu fordæmi og hætt við gjaldskrárhækkanir sínar. Telur hv. þingmaður að þetta sé gæfulegt innlegg í þær erfiðu viðræður sem fram undan eru? Eða telur hv. þingmaður að það sé til þess vinnandi að meta stöðuna út frá þessum kjarasamningaviðræðum og reyna að slökkva verðbólgubálið sem hefur angrað þessa þjóð í áratugi með því (Forseti hringir.) fara vægar í verðlagshækkanir?