143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við ættum bara að auglýsa eftir þessum sjónarmiðum í þingsal, a.m.k. vona að þau fari að koma fram. Alla mína tíð á þingi hafa verið uppi mjög sterk félagsleg sjónarmið innan Framsóknarflokksins. Þó að þau hafi orðið undir á tímabilum hafa þau verið mjög sterk. Ég man eftir því að hafa verið í þessum sal í liði með ágætum framsóknarþingmönnum að verja barnabótakerfi og vaxtabótakerfi og það hefur ekki gengið hnífurinn á milli.

Núna á að skera vaxtabótakerfið niður um hálfan milljarð á næsta ári. Fyrirgefið, virðulegi forseti, það munar um minna fyrir þá sem fá eitthvað út úr því kerfi. Það eru ekki efnuðustu fjölskyldurnar eða breiðustu bökin, alls ekki. Þar á að taka hálfan milljarð. Og flokkur fjölskyldunnar ætlar að standa að því með Sjálfstæðisflokknum. (Forseti hringir.) Mér finnst hann þurfa að fara að svara fyrir aðgerðir sínar og þá stefnu sem hér er mörkuð.