143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verðlagsbreytingar og fleira, eins og frumvarpið heitir. Þó að við séum ekki komin í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2014 erum við engu að síður með mikilvæga hlið fjárlaganna undir í þessu frumvarpi, sem er ýmislegt sem lýtur að tekjum ríkissjóðs. Þess vegna má segja að við séum komin í mikilvæga pólitíska umræðu um áherslur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, sem oft er nú talið eitt af mikilvægustu vörðum hverrar ríkisstjórnar um það hvaða stefnu hún fylgir og hvert hún vill þróa samfélagið.

Þess vegna er eðlilegt að um stórmál eins og það sem hér er til umræðu séu ólík pólitísk sjónarmið uppi. Það er eðlilegt. Og það er eðli lýðræðisins að enda þótt það sé nú yfirleitt sagt með réttu að allir sem eiga sæti á Alþingi vilji að sjálfsögðu vinna að framgangi og hag samfélagsins alls þá höfum við engu að síður ólíka sýn. Það er eðli fjölflokkalýðræðis að stjórnmálaflokkar beri fram ólíka stefnu, hafi ólíka sýn og það hlýtur að sjálfsögðu að endurspeglast í hinni pólitísku umræðu og orðræðu sem á sér stað á þinginu.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar eru allmargir efnisþættir sem tilefni væri til þess að fara í og hefur verið farið í allítarlega í umræðunni hér í dag, bæði af hv. þm. Pétri Blöndal, sem er framsögumaður fyrir áliti meiri hlutans, og sömuleiðis af fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þeir hafa gert grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem þeir hafa sett fram í minnihlutaáliti sínu. Aðrir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa tekið þátt í þeirri umræðu og farið í einstök efnisatriði. Ég ætla að reyna að gera það líka, ég ætla að fara hér í tiltekna þætti þessa máls, ekki endilega alla, tíminn leyfir það nú ekki, því miður, en ég ætla að reyna að fara í tiltekin atriði sem hér liggja undir.

Fyrst ætla ég að koma að þeim þætti sem lýtur að verðlagsuppfærslu í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014, en þar undir eru í raun 1. til og með 11. gr. frumvarpsins. Þetta frumvarp er svokallaður bandormur þar sem ægir saman breytingum á mörgum lögum í einu lagafrumvarpi og í 1.–11. gr. er fjallað um breytingar á olíugjaldi og kílómetragjaldi, þar er verið að fjalla um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti, það er verið að fjalla um umhverfis- og auðlindaskatta, bifreiðagjöld, gjald af áfengi og tóbaki, sem er undir í þessum fyrstu ellefu greinum frumvarpsins. Ég ætla nú ekki að fara að rekja hér einstakar breytingar eða neitt þess háttar, heldur aðeins að ræða um þær forsendur sem menn gefa sér í öllum þessum þáttum.

Hér er miðað við þær verðlagsforsendur sem liggja að baki fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Það er ekki hægt annað en benda á að full verðlagsuppfærsla einstakra skatta og gjalda, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, getur orðið afskaplega verðhækkunarhvetjandi við núverandi aðstæður. Það má að sjálfsögðu færa rök fyrir því að það sé æskilegt að einstakir tekjustofnar taki reglulegri verðlagsuppfærslu, að ekki sé látinn líða langur tími án þess að þeir séu uppfærðir í samræmi við verðlag, vegna þess að við þekkjum mörg dæmi um að þegar breytingar á þeim verða geta þær orðið mjög miklar og haft neikvæð áhrif.

Engu að síður er við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu full ástæða til þess að vara við því að vera með verðlagsforsendur jafn háar og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Það er hætta á því að hér verði ýtt undir verðlagshækkanir og að það skapi óstöðugleika sem leiðir aftur til frekari verðlagshækkana.

Í áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram það sjónarmið að við þessar aðstæður hefði verið lag til að rjúfa vítahring verðbólgu og verðlagshækkana í beinu samhengi við kjarasamningsgerð. Nú eru kjarasamningar lausir og kjaradeilum hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins. Það hlýtur að valda öllum nokkrum áhyggjum hvernig þróunin verður í því efni.

Aðilar vinnumarkaðarins, bæði launþegahreyfingin eða Samtök launafólks og samtök atvinnurekenda eða Samtök atvinnulífsins hafa kallað á það að opinberir aðilar haldi að sér höndum við núverandi aðstæður að því varðar hækkanir á gjaldskrá. Á sama tíma og ríkisstjórnin fer fram með fulla hækkun á þeim gjöldum sem hér eru undir hafa sveitarfélögin tekið annan pól í hæðina. Reykjavíkurborg hafði til að mynda ákveðið hækkun hjá sér á gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga en kippti því til baka og ákvað að falla frá því og hafa fleiri sveitarfélög síðan fylgt því fordæmi. Þar má segja að komi fram sú hugsun og sá vilji að leggja lóð á vogarskálarnar til þess að halda verðlagshækkunum í skefjum til þess að reyna að tryggja að hér geti tekist kjarasamningar sem skila fólki raunverulegum kaupmáttarauka án þess að það leiði til verðbólguskots sem tekur síðan þær kjarabætur til baka. Ríkisstjórnin hefði að mínu viti átt að sýna viðleitni í þá átt við þessar aðstæður, en hún kýs að gera það ekki.

Það tel ég vera sérstaklega bagalegt vegna þess að það er að sjálfsögðu horft til frumkvæðis og stefnumótunar ríkisins í þessu efni og þær aðgerðir og ráðstafanir sem ríkið grípur til munu hafa áhrif á allt umhverfið að öðru leyti.

Það er auðvitað hætt við því að ef ríkið fer fram með þessar verðlagshækkanir að fullu muni það leiða eða hvetja til verðbólgu sem getur haft slæm áhrif á kjaraviðræður, sem aftur getur haft áhrif á að aðrir aðilar eins og sveitarfélögin sem hafa að sinni a.m.k. ákveðið að halda að sér höndum, telja sig knúin til þess að hækka gjaldskrár sínar, þá erum við komin hér með hringrás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Það tel ég vera sérlega bagalegt, frú forseti, og vara við því.

Mig langar líka að fara aðeins í umræðuna um endurgreiðsluhlutfall til nýsköpunarfyrirtækja.

Það er ljóst og kemur fram í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að minni hlutinn er algjörlega mótfallinn því að dregið verði úr stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Frumvarpið gerði ráð fyrir því að endurgreiðsluhlutfall vegna þróunarkostnaðar væri lækkað úr 20% í 15%. Nú hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gert vissar breytingar á þessu en breytir þá viðmiðunarmörkum eða hámarksfjárhæðum sem koma til endurgreiðslu þannig að eftir sem áður er nettóniðurstaðan sú að dregið er úr þessum stuðningi eða endurgreiðsluhlutfalli til nýsköpunarfyrirtækja um þær 300 milljónir sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það má því segja í raun að þó að meiri hluti nefndarinnar velji hér aðra aðferð sé gjörðin sú sama.

Hér hafa ýmsir þingmenn vakið sérstaklega máls á því hvaða áhrif þetta hefur, því að a.m.k. á stundum eru höfð uppi fögur orð um að framtíðin liggi í nýsköpun og þróun, sprotafyrirtækjum, rannsóknum og vísindum og það sé mikilvægt að við það sé stutt.

Skömmu eftir hrun var sú umræða mjög áberandi að við ættum að líta til þess hvað aðrar þjóðir hefðu gert þegar þær lentu í miklum efnahagsáföllum. Sérstaklega var vísað til Finna á 10. áratugnum, sem urðu fyrir miklum efnahagshremmingum, en þar var lögð mikil áhersla á að efla frekar en hitt nýsköpun og þróun og ég held að það hafi skilað sér margfalt í finnsku efnahagslífi. Það hefur líka skilað sér í traustu og góðu skólakerfi og allar rannsóknir sýna skipti eftir skipti að Finnar koma vel út á því sviði. Hér held ég að verið sé að taka mjög misráðna ákvörðun um að draga úr stuðningi við nýsköpunarfyrirtækin. Þótt breytingartillaga liggi hér fyrir frá meiri hluta efnahagsnefndar eru eftir sem áður nettóáhrifin hin sömu.

Þessu hafa Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og Samtök sprotafyrirtækja andæft í sameiginlegri umsögn sinni til efnahags- og viðskiptanefndar. Þar er m.a. bent á að áhrif ákvæða gildandi laga á greiðslustöðu ríkissjóðs hafi í raun verið jákvæð eins og þar er lýst. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vísaði í ágæta úttekt í Fréttablaðinu, ég hygg að það hafi verið í gær frekar en í fyrradag, þar sem því er m.a. lýst hvernig framlög úr Tækniþróunarsjóði eða endurgreiðsla á þróunarkostnaði hafa skilað sér margfalt á ekki óskaplega löngum tíma. En hér er verið að draga úr þeim hvata sem endurgreiðslan á þessum kostnaði skapar. Þannig er dregið úr verðmætasköpun. Verið er að draga úr útflutningi og fjölgun starfa til lengri tíma litið.

Ég tel að miðað við þá fjárhæð sem hér er um að ræða sé þetta misráðin ákvörðun og ég harma hana mjög. Mér finnst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd eigi að taka þetta mál til frekari skoðunar á milli 2. og 3. umr.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að mikil áhersla er lögð á, og er í sjálfu sér enginn grundvallarágreiningur um það, að mikilvægt er að ríkisfjármálin séu í jafnvægi og að við reynum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem fyrst ekki síst til þess að draga úr þeim lántökum sem ríkið hefur orðið að standa að í kjölfar efnahagshrunsins með meðfylgjandi vaxtakostnaði sem það leiðir til. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við skulum heldur ekki gera lítið úr því að gríðarlegur árangur hefur náðst frá hruni þegar hallinn á ríkissjóði fór í yfir 200 milljarða kr. Það eru ekki nema fjögur ár síðan — í yfir 200 milljarða kr. Svo eru menn að tala um að uppgjör ársins 2013 sýni að hallinn verði nú 19 eða 20 milljarðar og telja það slakan árangur. Það er í raun og veru undraverður árangur, ef satt skal segja. Nú er gert ráð fyrir því að fjárlagafrumvarpið skili einhverjum hundruðum milljóna í afgang, 500–600 milljónum ef ég man rétt, það er í raun og veru innan allra skekkjumarka. Það er ekki hægt að ganga út frá því að það sé neitt í hendi hvað það varðar. Þá finnst mér nú í raun og veru ekki sjá á svörtu hvað það snertir þó að menn reyni að halda í við þætti eins og stuðninginn við nýsköpunar- og þróunarstarf í landinu.

Eins og hér hefur verið bent á eru fleiri þættir sem tengjast þessu sem ekki eru í þessu frumvarpi en eru í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, það eru framlögin í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð og markáætlunina. Þar er verið að draga úr útgjöldum þegar fullt tilefni væri til þess að gera betur og auka frekar í eins og áform voru uppi um.

Það tel ég að endurspegli ólíkar pólitískar áherslur og forgangsröðun. Mikið er talað um forgangsröðun, að forgangsraða eigi í þágu tiltekinna málaflokka. Mikið er talað um að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Ég er sammála því að það er ein af allra mikilvægustu grunnstoðunum í samfélagi okkar. Það þýðir ekki að aðrir mikilvægir þættir eigi að verða út undan.

Ég harma því mjög að menn séu, að því er virðist, á þeirri leið og hvet eindregið til þess að þeir endurskoði það sérstaklega.

Mig langar líka, frú forseti, að koma aðeins inn á hækkunina á skráningargjöldum í háskólum úr 60 þús. í 75 þús. kr. Það er gagnrýnt, sérstaklega af minni hlutanum, m.a. vegna þess að ekki er langt síðan skráningargjald var hækkað úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Það var reyndar gert í góðu samstarfi eða með skilningi námsmannahreyfinganna. Þá hafði ekki verið hækkun á innritunargjöldum eða skráningargjöldum lengi og var talið nauðsynlegt að gera það. Sú hækkun skilaði sér að fullu til háskólanna.

Nú er sagt að háskólarnir telji að skráningargjöldin standi ekki undir þeim kostnaði sem þeim er ætlað að standa undir, þess vegna sé nauðsynlegt að hækka þetta gjald úr 60 þús. í 75 þús. kr. Það er mikil hækkun fyrir venjulega námsmenn, það er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Sérstaklega svíður mér að þessi hækkun skuli ekki skila sér ekki nema að litlu leyti til háskólasamfélagsins. Þannig er í raun verið að taka hækkun úr 60 þús. í 75 þús. kr. og taka hluta af henni beint inn í ríkissjóð. Það er ekki hægt að líta á það öðruvísi en að það sé bara sérstök skattlagning á þá sem fyrir því verða, þ.e. námsmenn. Það finnst mér heldur ekki stórmannlegt. Það eru ekki breiðu bökin í íslensku samfélagi. Ég undrast það að til að mynda Framsóknarflokkurinn skuli treysta sér til að standa að því. Þó að hann eigi nú í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þá hefur löngum verið félagsleg taug í Framsóknarflokknum. Mér finnst því miður fara allt of lítið fyrir henni. Ég hef sjálfur átt í löngu samstarfi á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur við Framsóknarflokkinn og veit alveg að þar eru prýðilegar félagslegar áherslur inn á milli og sakna þess að sjá þeirra ekki stað í þessu máli og í fjárlagafrumvarpinu.

Eitt vekur líka athygli mína í þessu sambandi. Það er að finna í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á bls. 3 um þetta skrásetningargjald. Fyrirsögnin er: „Skrásetningargjald í háskóla, 22. gr.“, en síðasta setningin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.“

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það hljómar mjög sérkennilega. Þarna talar meiri hlutinn um þessi gjöld, ekki lengur sem skráningargjöld heldur sem skólagjöld, sem ég hélt að við værum sammála um að ætti ekki að innheimta í opinberum háskólum. En þarna kemur fram það sem er raunverulega hugsunin hjá meiri hlutanum; hækkun skólagjalda, að það kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á. Hvernig þá? Með því að taka fleiri einingar en fullt nám, svo dæmi sé tekið? Er það svo? Hér er engin skýring á því. Ég sakna þess að meiri hluti nefndarinnar skýri hvað hann á við þegar hann setur fram fullyrðingar af þessum toga í nefndaráliti sínu.

Frú forseti. Tími minn er á þrotum þannig að ég lýk nú máli mínu og þakka fyrir gott hljóð í þingsal.