143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir góða ræðu og yfirferð. Það þarf ekki að koma á óvart að við deilum um margt pólitískum skoðunum. Ég þakka honum sérstaklega fyrir hversu ítarlega hann fór yfir málefni er varða hækkun innritunargjalda í opinbera háskóla. Sjálf hyggst ég ræða meira en þingmaðurinn um Fæðingarorlofssjóð en ég þakka honum kærlega fyrir góða yfirferð varðandi opinbera háskóla.

Mér finnst erfitt að lesa það úr frumvarpinu, en það virðist hafa komið fram í umræðum í nefndinni, að með hækkun á innritunargjöldum eru þau orðin ansi há, 75 þús. kr. Við stóðum svo sem að því að hækka þau eftir að sýnt hafði verið fram á hver raunverulegur innritunarkostnaður væri, en nú er búið að sýna fram á að hann sé svona gríðarlega hár sem mér finnst reyndar merkilegt. Ég mundi vilja fá betri rýni á þær tölur, hvort það geti virkilega verið að í skóla með hátt á annan tug þúsunda nemenda eins og í Háskóla Íslands sé kostnaður á hvern nemanda hátt í 75 þús. kr. Svo virðist sem fram hafi komið í nefndinni að þessir fjármunir eigi ekki einu sinni að renna óskiptir til háskólanna. Hefur hv. þingmaður einhverjar upplýsingar um það?