143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kvartaði reyndar yfir því áðan að mér fyndist ekki farið nægilega yfir eða rökstuddar ýmsar breytingar sem meiri hlutinn leggur til. Ég tek undir með hv. þingmanni að upplýsingar kunni að hafa komið fram í nefndinni og nefndarmenn hafi þær á reiðum höndum en fyrir okkur sem ekki eigum sæti í nefndinni er ekki alltaf ljóst hvað átt er við eða hvert er verið að fara. En á bls. 2 í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er vítavert að slík hækkun skili sér ekki nema að litlu leyti til Háskóla Íslands vegna þess að framlag til hans lækkar milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014.“

Sem sagt, þrátt fyrir þessa hækkun á gjaldinu er verið að lækka framlagið til háskólans. Af því hljótum við að ráða að þetta framlag skili sér ekki til hans að fullu. Ef rök hans voru þau að skráningargjöldin eins og þau eru stæðu ekki undir kostnaðinum að fullu leyti þá væri auðvitað eðlilegt að hækkunin, ef menn vilja fara í hana, færi til háskólans og til að mæta þessum aukna kostnaði. En það þarf auðvitað að sýna fram á hann. Ég veit ekki hvort slíkir útreikningar liggja á bak við vinnu nefndarinnar, því geta kannski aðrir svarað, nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, en mér sýnist á þessu að það sé algerlega ljóst að hækkunin skili sér ekki til háskólans nema að óverulegu leyti. Þá er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að verið sé að skattleggja sérstaklega þann hóp sem greiðir þessi gjöld og það eru námsmenn. Það eru ekki breiðu bökin eins og ég lít á málið.