143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat þess í ræðu minni að ekki er langt síðan að skráningargjöldin voru hækkuð úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. og það hafi verið gert í ágætu samstarfi við námsmannahreyfingarnar vegna þess að gjaldið hafði þá ekki hækkað um nokkuð langan tíma. Um þetta var ágæt sátt. Það er ekki langt síðan þessi breyting varð.

Nú er aftur farið í það að hækka skráningargjöldin og eins og ég vakti máls á í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar heitir þetta reyndar orðið „skólagjöld“, sem er mjög sérkennilegt og er ný lína. Það væri fróðlegt að vita af hverju það er, hvort hér sé verið að lauma því inn að þetta eigi að vera skólagjöld og það sé leiðin sem eigi að fara.

Hv. þingmaður segir svo að menn muni hugsa sig um með hærra gjaldi og þá verði færri sem skrá sig í háskóla. En þá er í raun verið að búa til numerus clausus (Gripið fram í.) til viðbótar og viðmiðið verður efnahagur. Hverjir eru það sem munu hugsa sig um eftir því sem gjaldið er hærra? Ég gat ekki skilið þingmanninn öðruvísi en að hann vildi bara fara enn hærra til þess að takmarka fjölda þeirra sem skráðu sig og færu í háskólanám. Hvert er þá viðmiðið og hverjir eru það sem munu hugsa sig um? Það eru hinir efnaminni, það eru þeir sem munu hugsa sig um.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar talar um það í nefndaráliti sínu að þetta muni hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á. Hvað er átt við með þessu? Er átt við með því að þeir sem borga 75 þús. kr. skólagjöld muni t.d. taka fleiri en 30 einingar á önn, sem er viðmiðið, sem er fullt nám? Er það að nýta sér námið betur eða er það að fá frekar 9 í einkunn en 8? Hvað er átt við? (Forseti hringir.) Það fást engin svör við svona spurningum.