143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins, bandorminn, þar sem verið er að ákveða álögur, tekjur til að eiga við í tengslum við útgjaldahliðina. Það sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli er hvar menn sækja tekjur. Til hvers eru menn að leggja á skatta og gjöld? Það eru margar ástæður fyrir því. Í sumum tilfellum er verið að leggja á þjónustugjöld eða kostnað, menn eiga að bera ákveðinn kostnað og það kemur fram í þessum bandormi að slíkar álögur er þar inni á milli.

Í öðrum tilfellum erum við, eins og hefur komið fram annars staðar, þar sem tekjuskattshlutinn er að safna saman peningum til að geta deilt þeim aftur út til að jafna kjörin í landinu eða afla tekna til ákveðinna útgjalda.

Ég benti á í andsvari áðan að það vekur athygli í fjárlagafrumvarpinu og í mörgum af þeim ákvörðunum sem hér eru teknar að menn eru að fara svolítið yfir í nefskattaleiðina. Það hefur oft borið á því áður, ekki síst hjá hægri flokkum sem segjast ætla að lækka skatta en í raunveruleikanum eru verið að færa skattana úr því að vera tekjuskattar yfir í að verða einhvers konar þjónustugjöld og jafnvel nefskattar og er það meira og minna dulið, ég tala ekki um ef þeir geta útvistað verkefnunum og komið gjöldunum þannig yfir á einstaklingana, þá geta menn falið það og sagt: Við höfum náð að lækka skatta.

Ég ætla gagnstætt því sem hefur verið gert áður að þakka fyrir nefndarálitið sem kemur frá meiri hluta nefndarinnar að því leyti að í þeim atriðum sem fjallað er um í tillögunum er reynt að reifa málið, þ.e. vekja athygli á, sem mér finnst mjög gott í nefndaráliti frá meiri hluta, þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndinni og draga svo ályktun af því og leiða til einhverrar niðurstöðu. Það hefur auðvitað komið fram áður og er kannski ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta og þyrftum að gera í miklu meira mæli en okkur hefur tekist síðastliðna þrjá daga, við þurfum að eiga viðræður um ólík sjónarmið. Ég vil þakka aftur, eins og ég kom inn á áðan, að hér sé ég þrjá af fulltrúum meiri hlutans úr þessari nefnd sem eru að fylgjast með umræðunni og hafa blandað sér í umræðuna og komið í fyrirspurnir sem mér finnst líka til fyrirmyndar. Þannig getum við dregið fram mismunandi skoðanir og leiðir, hvernig við viljum vinna að góðum niðurstöðum fyrir samfélagið í heild. Það er auðvitað klár vilji allra þeirra sem vinna á þessu þingi.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í nefndarálitinu og niðurstöðunum í þessum breytingum plús að fara örlítið í breytingar sem voru gerðar á frumvarpinu í heild. Það fyrsta er að farið er yfir þjóðhagsspána og væri fróðlegt ef þeir sem hér eru frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar gætu sagt mér í sambandi við það sem sagt er um þjóðhagsspána, að búist sé við verulega mikilli aukningu í stóriðjuframkvæmdum á næstu árum, það er að vísu talað um 2015 og 2016, hvort þau áform hafi breyst eitthvað við þær fréttir sem hafa borist á síðustu dögum í sambandi við Helguvík, hvort menn sjái það fyrir sér. Það er alveg rétt sem hefur komið fram í umræðum að Helguvík hefur alltaf hangið inni í þjóðhagsspám og verið einhver von en nú er þetta allt í einu komið upp á borðið. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar orðaði það ágætlega þegar hann var spurður um Helguvík. Hann sagði að þetta væri eins og vera með leikfang sem menn horfðu á lengi en það vantaði í það batteríin. Það er akkúrat rétt. Menn eru búnir að vera með Helguvík í umræðunni en það hefur enginn viljað skaffa batteríin í fyrirtækið.

Það eru nokkur atriði sem er gaman að skoða og það eru verðlagsuppfærslur og skattar þar sem rökræddir eru kostir og gallar þess að hækka gjöld. Það hefur auðvitað komið mjög skýrt fram, og Reykjavíkurborg reið á vaðið, að þau skilaboð eru mjög mikilvæg — ekki hvað síst eftir umræðuna um skuldaleiðréttinguna og umræðuna um að afnema verðbólguna vitandi það að við erum enn þá og verðum áfram með húsnæðið, lánin öll sömul, þannig að við getum ekki afnumið verðtrygginguna á láninu aftur í tímann — að við getum hugsanlega gefið mönnum kost á að breyta en þá er gríðarlega mikilvæg forsenda að menn haldi verðbólgunni niðri.

Það er reifað ágætlega hérna og velta menn yfirleitt upp einni af forsendunum fyrir því að reyna að halda niðri verðbólgu. Það er að opinberir aðilar og einkaaðilar haldi að sér höndum, hækki ekki gjaldskrár eða vöruverð. Þetta er lesið beint upp úr álitinu, sú „diskusjón“ sem á sér stað í áliti meiri hlutans. Það væri þá raunvirði, þetta er tekjuhliðin og þyrfti að gera slíkt hið sama við gjaldahliðina, það er tekið ágætlega fram.

Síðan er rætt um kosti og galla við það. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að vera með ákveðnar hömlur ákveða menn að hækka í samræmi við verðlagsþróun, spána og þeir viðurkenna það. Það hefur ákveðinn galla því að það getur orðið til þess að viðhalda ákveðinni verðbólgu og þar með hækka lán og annað sem því fylgir. Það er viðurkennt að það sé rétt sem er haldið fram, að verðlagsuppfærslur skatta og gjalda geti í raun verið verðbólguhvetjandi. Engu að síður velur meiri hlutinn og ríkisstjórnin að fara þá leið sem er mjög athyglisvert.

Síðan koma þeir með vangaveltur um að þrátt fyrir að þetta sé skoðun meiri hlutans á því hvort draga hefði átt úr þessum hækkunum er talin ástæða til að hækka. Það er líka dálítið athyglisvert sem kemur fram hjá meiri hlutanum í sambandi við verðlagsuppbæturnar. Þar er verið að ræða bensíngjaldið og skatta á eldsneyti sem var mjög mikið rætt á síðasta kjörtímabili og nokkrir sjálfstæðismenn fluttu meira að segja tillögu um að ríkisstjórnin þá, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, lækkaði bensíngjöld til að halda bensínverði niðri. Það hefur verið nokkuð stabílt lengi, í kringum 240–250 kr., en hér kemur allt í einu setning sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Þannig hefur verð á bensíni lækkað að undanförnu“ — það hleypur að vísu örlítið upp og niður en það er verið að spá því að það lækki eitthvað — „og af þeim sökum minnka tekjur ríkissjóðs.“ Þetta er athyglisvert vegna þess að yfirleitt hefur verið talað um það og færð fyrir því rök að með því að lækka gjaldtöku, eins og þar var sagt, mundi magnið aukast og þar með tekjurnar. En það er ekki álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og ég er svo sem alveg sammála þeim vegna þess að ég held að þegar gjöldin á bensíni voru hækkuð hafi það haft áhrif til skamms tíma en ekki til langs tíma í sambandi við breytingu á akstursskilyrðum, þótt það sé með akstursmáta, eitthvað sem mikið var ekið.

Það sem ég er að vekja athygli á er að í raunveruleikanum var tekin sú afstaða í meirihlutaálitinu að menn verði þrátt fyrir allt að hækka gjöld. Menn ætli ekki að taka sveitarfélögin sér til fyrirmyndar, menn ætli ekki að leggja inn í umræðuna breyttar forsendur til að reyna að ná kjarasamningum og reyna að berjast gegn verðbólgunni heldur falla í þá freistni að taka gjöldin og taka áhættuna af því að hér verði verðbólga.

Punktur nr. 2 í nefndarálitinu, sem heitir Kostnaður við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er athyglisverður en þar er dregið verulega úr. Það er náttúrlega kannski fyrst og fremst út af fjármálaeftirlitinu en verið er að hlífa fjármálastofnunum við að borga og prósentan á þeim lækkuð til að að borga þar inn en þar er kostnaðurinn beint út og inn. Að vísu borgar Íbúðalánasjóður, svo ég sé nú sanngjarn, sinn hluta þannig að það sparast að einhverju leyti þar. Þarna verða menn að finna sér mjög hófleg mörk til að Fjármálaeftirlitið standi undir væntingum okkar og ekki veitir af núna þegar við þurfum að ljúka því að koma böndum á fjármálaheiminn. Enn þá meiri áminning eru þeir dómar sem féllu í dag um að við förum ekki aftur í gamla farveginn þar sem menn höfðu regluverkið allt of losaralegt og þar sem menn settu sér beinlínis það markmið að hafa sem fæstar reglur og við erum að uppskera í samræmi við það.

Ef við tökum nokkur atriði má nefna stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem hefur mikið verið ræddur. Ég vil taka undir það sem hefur oft komið fram í umræðu, og við heyrum það þegar við förum um landið, að nýsköpunarumhverfið á Íslandi er býsna gott. Það er ágætlega búið að slíkum fyrirtækjum í heild sinni. Þess vegna hefði mér fundist að við hefðum átt að reyna áfram að búa vel að því umhverfi og freistast ekki til að fara inn í þennan þátt sérstaklega. Upphaflega var hugmyndin að minnka um fjórðung endurgreiðslurnar vegna nýsköpunar- og þróunarkostnaðar. Mér sýnist vera horfið frá því og frekar eigi að setja hámörk á það sem endurgreitt er. Útfærslan á því er ekki mjög nákvæm þannig að við höfum ekki séð alveg hvernig það á að gerast en það mun hugsanlega verja að einhverju leyti smærri fyrirtækin en bitna þá frekar á þeim stærri.

Eitt af því sem hefur líka verið gagnrýnt þegar við höfum rætt við þau fyrirtæki sem eru búin að fara í gegnum nýsköpunarferlið er að þau lenda svolítið á þröskuldum þegar kemur að markaðshlutanum, þegar kemur að því að þurfa að fara að selja vöruna, breytast úr því að vera sprotafyrirtæki yfir í að vera alvörufyrirtæki, þar sé svolítið gat í stuðningnum. Auðvitað er það þannig að við rekum þessi fyrirtæki ekki einungis á styrkjum frá ríkinu, þvert á móti erum við að búa til umhverfi sem er hvetjandi og maður hefði viljað sjá að menn rökstyðja betur hvernig þeir ætla að tryggja að hér verði áfram öflugt nýsköpunar- og þróunarstarf.

Þarna kemur það inn sem við erum að ræða alls staðar og ræddum í tengslum við rannsóknarsjóðina, þróunarsjóðina, markáætlanir og annað slíkt, að vaxtarsprotarnir í atvinnulífinu hafi líka verið atvinnuskapandi, í tónlistinni, alls konar listum, hönnun og öðrum slíkum hlutum sem í eru gríðarleg verðmæti og eru, eins og margoft hefur verið bent á hér, ekki háð náttúrulegum takmörkunum vegna gæða landsins eins og er í sumum öðrum tilfellum.

Rædd hafa verið skrásetningargjöldin í háskóla. Þar kemur alltaf sama kenningin um að ef maður kaupir sér eitthvað nýti maður það betur. Það kann að vera að það virki á suma en á hverja skyldi það helst virka? Það virkar á þá sem eru fátækastir og við þekkjum það raunar frá öðrum löndum. Að vísu eru þar mörg dæmi, eins og í Asíulöndunum, um að heilu fjölskyldurnar, jafnvel konurnar, vinni í Evrópu til að bjarga menntun barnanna sinna. Það er gríðarlega mikill áhugi á því að hjálpa börnunum sínum til náms. Aginn kemur ekki í gegnum peningana. Hann kemur allt annars staðar frá. Hann kemur í regluverkinu í kringum háskólann og annað slíkt. Ef við vildum ná þessu fram væri miklu eðlilegra að við værum með tryggingar sem væru lagðar fram, ef menn féllu úr námi af einhverjum öðrum ástæðum en vegna ástundunar félli gjaldið á þá eða eitthvað slíkt, ef við héldum að það dygði.

Við höfum hér kennara sem kenndi í framhaldsskóla og þá voru menn að reyna að til dæmis að taka gjöld fyrir að taka upptökupróf. Ég held að fjöldinn sem fór í upptökupróf hafi ekkert minnkað við að þau gjöld voru sett á. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en háskólarektor benti á það í ræðu hvað er alvarlegast. Hann sagði: Það er verið að taka 200 milljónir í tekjur en við fáum 39 milljónir. Er það tilfellið? Við getum sagt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal: Við leggjum þetta á vegna þess að það á að borga innritunargjöld. Svo tökum við þetta annars staðar. (Gripið fram í: Algerlega óháð.) Algerlega óháð. Þá spyr maður: Til hvers? Af hverju erum við að borga þennan þátt sérstaklega og segja að það verði að taka af kennslunni? (PHB: Það vantar pening.) Já, gott og vel, en þá eiga menn að sækja það í tekjur þar sem við erum með skattkerfi, meira að segja þrepakerfi, þar sem við dreifum því. Hugmyndin með skattkerfinu er að við sem erum ekki lengur með börn í námi og erum búin að fara í gegnum námið hjálpum þeim sem eru í námi í dag. Það er þannig af því að maður borgar ekki allan kostnaðinn þegar hann fellur til. Þarna hefur verið mismunurinn á vinstri og hægri pólitík þar sem menn vilja borga að fullu og segja: Borgum bara ef við þurfum á að halda. Borgum bara í heilbrigðiskerfið þegar við verðum veik. Borgum bara skólann ef við förum í skóla. Þetta eru sjónarmið sem hafa verið uppi og eru víða í heiminum. Þarna skilur á milli hægri og vinstri pólitíkur.

Ég segi: Við ættum að bera þetta saman. Við ættum að gefa fólki kost á því að sækja þjónustu óháð efnahag, hvort sem er í námi eða í heilbrigðisþjónustu. Það tengir okkur inn á komugjöldin og sjúkrahúsin. Það eru auðvitað mikil vonbrigði, þótt það eigi sér ákveðnar skýringar, að eitt af stóru verkefnunum sem við kláruðum ekki á fyrra kjörtímabili, og ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkir það mjög vel, var að ná tökum á því hvaða gjaldtaka á sér stað í kerfinu. Þarna er tekið eitt skref fram hjá þeim vinnuhópi sem vinnur að því að finna lausn á því hvernig við högum gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu.

Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu kemur mjög víða við. Hún er þannig að landsbyggðarfólk sem er að fara langan veg fær ekki nema lítinn hluta borgaðan. Við erum með dýr hjálpartæki sem eru borguð af þeim sem þurfa að nota þau og við getum talið svona áfram endalaust.

Það sem kom mér á óvart þegar menn breyttu þessu úr legugjöldum yfir í komugjöld var að mér skilst, samkvæmt þessu, að sömu tekjur náist. Komugjöldin hljóta að þurfa að vera býsna há til að það gangi upp.

Ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur óskað eftir að koma í andsvar og fagna ég því. Það er talað um að lægri gjöld verði á öryrkjum, öldruðum og börnum. Börn voru tekin út fyrir sviga, það eru engin komugjöld hjá þeim á heilsugæslu og að ég best veit eru engin komugjöld hjá þeim heldur á bráðamóttöku á barnaspítala. Ætli menn að fara að taka upp komugjöld, eins og má skilja á þessu? Þetta er atriði sem við verðum að fá tækifæri til að ræða og spyrja um. Ég vona að ég fái einhver svör. Eða ætla menn að hafa þau hófleg og hvað þýðir það?

Í tannlækningunum þegar við lögðum til gjaldfrjálsar tannlækningar var rætt um að borga eitt komugjald á ári sem nemur um 2.500 kr. — eitt komugjald á ári. Erum við að tala um einhverja slíka tölu? Það eru auðvitað þeir sem eru veikir sem fara á sjúkrahús og það verður að taka það fram að langflestir þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús eru búnir að nýta sér alla hina þjónustuna. Þeir eru búnir að fara í myndatökurnar, þeir eru búnir að vera í greiningum áður og borga komugjöld þar þannig að ekki er hægt að tala um jafnræði í því samhengi eða að verið sé að jafna á milli, það er alls ekki rétt. Það er af mörgu að taka.

Varðandi breytingarnar á fæðingarorlofinu er það eitt af því þar sem verða til einhverjar sögur sem síðar verða að sannleika. Ég hvet nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd til að lesa skýrslu frá jafnréttisþingi sem núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, lagði fram núna í október. Þar er heill kafli um fæðingarorlofið. Þar er annars vegar vitnað í skýrslu sem sá sem hér stendur skilaði þinginu árið 2011 um þróun fæðingarorlofsins, í niðurskurðinum, og hins vegar í vandaða ritgerð sem er unnin af háskólafólki þar sem verið er að meta áhrif gjaldtökubreytingar á töku fæðingarorlofs. Hér er fullyrt, að vísu er vakin athygli á því að uppi séu önnur sjónarmið, að feður taki minna fæðingarorlof en áður vegna þess að búið sé að lækka þakið svo mikið. Þegar ég skoðaði þetta 2011 kom mér mest á óvart að það voru konur, þá voru þetta 75% og 80%, sem tóku styttra fæðingarorlof einfaldlega vegna þess að þær höfðu ekki efni á því. Við erum að tala um 80% af lágum launum og þær höfðu ekki efni á því. Maður hefði þó viljað koma til móts við þann hóp til þess að tryggja að allir gætu tekið fæðingarorlof.

Hér er talað um að lengja fæðingarorlofið. Við skulum átta okkur á því að að fæðingarorlofið er fjármagnað í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð með sérstöku gjaldi. Þar voru menn að byggja sjóðinn upp eftir mikið álag í byrjun og þegar menn skáru niður byggðist sjóðurinn upp og sjóður myndaðist. Nú eru menn að klára hann aftur og lækka þá tekjurnar inn í hann. Ég skil ekki að hvaða frumkvæði því ekki ætlum við að fara að taka það í ríkiskassann. Þetta eru launaskattar sem eru í gegnum atvinnulífið og það er þá verið að létta á atvinnulífinu. Það hefur enginn beðið um það. Þegar við lengdum fæðingarorlofið með lögum árið 2012 var verkalýðshreyfingin og launþegahreyfingin öll mjög sátt við það. Það var bara hluti af þeirra kjörum. Við stöndum frammi fyrir vanda sem er ekki eins annars staðar á Norðurlöndunum, þ.e. að bil er á milli fæðingarorlofs og leikskólapláss. Það er komin þingsályktunartillaga hér inn sem mér sýnist að nefndin sem ég er í, allsherjar- og menntamálanefnd, ætli að samþykkja, um að láta finna út með hvernig eigi að fylla upp í þetta bil sem er frá heilu ári upp í tvö ár á meðan við erum ekki með leikskóla fyrr en eftir tvö ár.

Það eru margar rangar fullyrðingar hér. Til dæmis um að feður taki ekki fæðingarorlofið því að í ljós kemur að margir af þeim sem eru með betri tekjurnar hafa tekið það áfram, þeir sem eru í millitekjunum taka það síður en svo er líka seinkun í kerfinu sem þýðir að menn hafa þrjú ár til að taka fæðingarorlofið og það hefur sýnt sig að feður koma seinna inn. Þetta er allt saman rökrætt á þessum fjórum, fimm blaðsíðum. Ég skora á menn að skoða það því að þarna er þetta rökstutt með rökum sem standast ekki það nýjasta sem liggur fyrir, meira að segja frá ráðherra úr þeirri ríkisstjórn sem núna er með málaflokkinn. Við skulum ekki tala um (Forseti hringir.) að það sé allt slæmt sem kemur fram hérna. Við erum að draga fram atriði sem þarf að ræða og skoða og erum að reyna að leiða fram ólík sjónarmið. Tíminn er búinn en væntanlega fæ ég tækifæri til að ræða eitthvað af þessu í andsvörum.