143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Áður í þessari umræðu var rætt um reglugerðarheimildir og lög og menn minntu mig á að ég vildi frekar hafa ákvæði í lögum en í reglugerðum. Nú er það þannig að í sjúkratryggingum, sem við ætlum að tala um varðandi legugjöldin og innritunargjaldið, er allt fullt af reglugerðum. Það voru þrír heilbrigðisráðherrar í síðustu ríkisstjórn, Ögmundur Jónasson, Álfheiður Ingadóttir og Guðbjartur Hannesson, síðasti ræðumaður, og ekkert þeirra breytti þessu, enginn þessara hæstv. heilbrigðisráðherra hefur breytt þessu eða haft frumkvæði að því. Þau hafa bara skrifað undir reglugerðir og þar á meðal hv. þm. Guðbjartur Hannesson; 4. apríl skrifaði hann undir reglugerð um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði. Allar tölurnar sem þar komu fram komu frá ráðherranum, ekki lögum. Það er þetta sem ég er að gagnrýna. (Gripið fram í.) Þetta er ekki til eftirbreytni.

Það að ég skuli vilja nota sjúkratryggingar í því skammtímaverkefni að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð eða spara útgjöld ríkissjóðs á næsta ári, 2014, er ekki það sama og að ég vilji til langtíma hafa þetta áfram svona, þessa vitleysu. Ef ég réði einhverju um það mundi ég vilja setja hærri upphæðir í lög um sjúkratryggingar en ekki hafa það eins og hér er þar sem ekkert af kostnaðinum er í lögum.

Svo það að fólk leggist inn á spítala og fari í rannsóknir, þeir sem lenda í bílslysi fara á gjörgæslu, eru þar í segjum í sjö daga, brotna og annað slíkt, fara svo út. Þeir borga ekki krónu, aldrei, hvorki fyrr né síðar.