143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór að tala um reglugerðir af því að hv. þingmaður hafði verið heilbrigðisráðherra í nokkurn tíma og ritaði undir fjöldann allan af reglugerðum og var í lófa lagið að breyta þessu. Það hefði t.d. mátt setja lyfjagreiðslufrumvarpið í lög í staðinn fyrir að hafa það reglugerð.

Hv. þingmaður talaði líka um fæðingarorlof og talaði um að það væri ágætt að fara að norrænni fyrirmynd o.s.frv. Já, já, það er eflaust mjög gott. Það vill bara svo til, herra forseti, að við skuldum alveg óhemju peninga og við erum að borga 70–75 milljarða á ári í vexti. Það er eitt stykki sjúkrahús frá grunni á hverju einasta ári sem við greiðum í vexti.

Ég ætla að fara í gegnum rulluna aftur: Til þess að ná vöxtum niður þarf að minnka skuldir ríkissjóðs, og til þess að ná þeim niður þarf að hafa afgang á ríkissjóði. Til þess er allur þessi barningur. Þess vegna erum við svona leiðinleg. Þess vegna lengjum við ekki fæðingarorlofið. Ég vildi gjarnan hækka hámarkið á fæðingarorlofi almennilega vegna þess að ég hef þá trú, þó að ég hafi ekki neinar kannanir á bak við mig, að lækkun hámarksins hafi minnkað jafnréttið. En það er ekki til peningur og þá stöndum við í því að reyna að finna tekjumöguleika alls staðar, jafnvel hjá sjúklingum eins og hv. þingmaður nefndi svo smekklega. Við ætlum að láta menn borga fyrir innlögn nákvæmlega eins og fyrrverandi hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði þegar hún skrifaði undir reglugerð um að sjúklingar sem dvelja á sjúkrahóteli greiði 1.200 kr. á dag — sjúklingar sem búa á sjúkrahóteli af því að þeir eru utan af landi, þeir geta ekkert annað, þeir borga 1.200 kr. í dag. Þetta fór í gegn. Hvers vegna skyldu þeir borga? Þeir eru kannski ekki nógu mikið veikir.