143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hluti af þeirri gagnrýni eða umræðu sem ég vildi vekja athygli á áðan og snýr að þessu frumvarpi er: Af hverjum er verið að létta gjöld? Hver borgar Fæðingarorlofssjóðinn í dag? Ríkið með gjöldum í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð, sem eru tekjur af atvinnulífinu og af launþegum í gegnum þá skatta.

Þeir aðilar hafa hingað til verið sammála um að halda þeim sjóði og byggja hann upp. (PHB: Það er ríkið sem setur skatta.) Það er alveg hárrétt. Ég meina, þetta er gert í sameiningu og í sambandi við kjarasamninga og það var engin eftirspurn sérstaklega eftir þessu. En það er dæmigert að menn byrji á því. Menn eru hérna með skatta sem eru á fjármálafyrirtæki — það er lækkað til að geta lækkað útgjaldarammann á Fjármálaeftirlitinu og öðru slíku, en síðan er hækkað á öllu hinu. Af hverju er þetta svona? Mér finnst þetta vera eitthvað sem er til verulegrar umhugsunar.

Sjúkrahótelið er ekki endilega gott dæmi. Ég held að við þyrftum að vera með sjúkrahótel víðar, til dæmis þegar við erum að fækka eða eigum ekki möguleika á að bjóða fæðingarþjónustu á minnstu spítölunum vegna tæknikrafna og menntunarkrafna til þeirra sem þar vinna. Þá verðum við að kalla til fólk, eins og á Akureyri. Þar verður fólk að fara inn jafnvel viku fyrr, það er ekki veikt en það hefur enga aðstöðu þar eða það þarf að borga stórfé fyrir hana. Þá er sjúkrahótelið hugsað til þess. Eða ef þú ert að bíða vegna þess að þú þarft að fara í aðrar rannsóknir og þarft ekki að taka pláss, þá ertu færður til, og í staðinn fyrir að vísa þér út í samfélagið er þér boðið upp á að vera á sjúkrahóteli fyrir ákveðna gjaldtöku. Mér finnst ekkert athugavert við það.

Sama er með Reykjalund þegar við erum breyta í dagdeildir, við látum fólk ekki vera í fæði og húsnæði frá klukkan fjögur á daginn til átta um morguninn ef það er ekki nauðsynlegt. Við eigum auðvitað að fara heildstætt yfir þetta og það var það sem við vorum að ræða áðan. Þessi breyting sem kemur hér inn er svolítið tilviljunarkennd og er að mínu mati mjög neikvæð og algjörlega óþörf. (Forseti hringir.) Og miðað við „grand“ hugmyndir í fjárlögum um að efla heilbrigðisþjónustuna þá finnst mér þetta vera úr takti við það.