143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vakti athygli á þessari skýrslu frá jafnréttisþingi, en ég er að vísu bara með blaðsíðurnar sem fjalla um fæðingarorlofið. Þetta er 183 blaðsíðna skýrsla sem fjallar um jafnréttismál. Þar af er einn kafli um fæðingar- og foreldraorlof og er á bls. 38–44, en þá tekur við kafli um dagvist barna.

Það sem er athyglisvert í þessu er einmitt að þarna eru upplýsingar sem eru meðal annars byggðar á þeirri rannsókn sem ég sagði frá áðan um hvaða áhrif lögin um fæðingar- og foreldraorlof höfðu þegar þau voru sett árið 2000. Það er alveg náttúrlega klár niðurstaða að þetta er eitt af bestu dæmunum um það þar sem löggjafi tekur frumkvæði — þökk sé þeim sem þá voru á þingi — og hefur gríðarleg áhrif á hegðun í þessu, t.d. varðandi uppeldi barna. Karlmenn komu inn í myndina við þessa lagabreytingu á sínum tíma.

Lögin voru býsna rífleg í byrjun, svo var þrengt að og þess vegna hafa menn reynt að geta sér til um hver áhrifin hafi verið þegar við fórum að skera niður illu heilli, þegar við þurftum að gera það í hruninu og vorum svo að byrja að gefa til baka. Þetta er reifað mjög vel hér. Þá koma þessar vangaveltur eins og t.d. hvaða áhrif þetta hefur á karlmennina. Það er t.d. mjög athyglisvert sem kemur hér fram að þetta hefur ekki haft nein áhrif á suma þá sem eru tekjuhæstir. Aftur á móti kemur fram að þetta hefur haft áhrif á millitekjuhópinn. Ég man eftir því úr skýrslunni sem ekki er hér, sem er heil skýrsla sem var skilað til þingsins árið 2011, að þá kom þetta fram sem mér fannst mjög athyglisvert. Mér brá við að sjá að það voru konur og karlar sem tóku færri daga vegna þess að þau þoldu ekki að fara úr 100% í 80%. Við hefðum þurft að huga að því hér vegna þess að það er líka hluti af því sem er vandamál við það sem við erum að gera núna, það er ákveðinn hópur sem situr svolítið eftir.