143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá bókartitil um daginn sem var einhvern veginn svona: Þetta sagði ég.

Í haust hef ég verið á þingfundum sem voru einn og hálfur til tveir tímar því að hingað komu engin mál. Þá tók ég einu sinni til máls um fundarstjórn forseta og sagði: Ég vona sannarlega að þetta verði ekki til þess að hér verði okkur haldið sólarhringum saman innilokuðum á þingfundum í lok desember. Því miður virðist það hins vegar ætla að verða raunin sökum óskipulags því að ég get ekki séð að núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafi sett nokkur met í því að tala lengi um mál ef ég rifja upp lengd umræðunnar á síðasta þingi svo dæmi sé tekið. Hér var talað í tvo daga í 2. umr. um fjáraukalög svo dæmi sé tekið. Við byrjuðum að ræða þetta mál kl. 15 í dag og ég átta mig ekki á nauðsyn þess að halda áfram langt inn í nóttina, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að hér hefði verið hægt að klára þessi mál miklum mun fyrr á þessari önn.