143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram eru menn að átta sig á því, eftir því sem þessari umræðu um tekjubandorm vindur fram, að það eru slíkir laumufarþegar á ferðinni að það hefði dugað töluverður tími til að ræða hvern þeirra. Ræðum bara þann hluta sem er breytingartillaga meiri hluta þar sem lagastoðin fyrir innritunargjaldi á sjúkrahúsi er gefin. Þessi litli hluti er alveg gríðarlega mikil breyting á íslensku samfélagi og það er ekki hluti af einhverri hefðbundinni afgreiðsluumræðu um tekjubandorm. Og þetta er bara einn hluti af öllu því sem hér er boðið upp á. Við erum að tala um hækkun á skráningargjöldum til háskólans. Við erum að tala um mjög alvarlega útreið á áformum um fæðingarorlof í landinu.

Við erum að tala um pólitískar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi sem gengur ekki annað en að séu ræddar ítarlega. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki einhverjir smotterísstafliðir í bandormi.