143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það má ekki gleyma því að á morgun hefst 2. umr. fjárlaga og fjárlagafrumvarpið er lítt þekkjanlegt eins og það bíður okkar á morgun frá því sem það var þegar það var lagt fram í upphafi. Þetta er algjörlega nýtt frumvarp. Við munum þurfa á öllu okkar að halda í þeirri umræðu og sinna henni vel, ekki síst vegna þess að formaður fjárlaganefndar er nú búinn að boða að í því frumvarpi sé innifalin þjóðarsátt, hvorki meira né minna, og því full ástæða fyrir okkur að geta faðmað þá þjóðarsátt með fullnægjandi hætti í fyrramálið þannig að við völdum ekki sáttfúsum þingmönnum vonbrigðum.

Ég tek líka forseta vara fyrir að fylgja ráðleggingum hv. þm. Jóns Gunnarssonar um það hvort halda eigi að næturfund eða ekki. Ég lenti nefnilega í því á síðasta kjörtímabili að koma hingað með tveggja nátta millibili og í bæði skiptin hélt þá Jón Gunnarsson sömu ræðuna orðrétt. Þá var hann að lesa (Gripið fram í.) úr skýrslu um algerlega ótengt efni. Blessunarlega hafa (Forseti hringir.) okkar umræður aldrei verið á því plani þessa dagana (Forseti hringir.) og ég get heitið virðulegum forseta því að þannig verða þær ekki.