143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil aftur inna eftir því hvort það teljist málefnaleg fundarstjórn að hér sé verið að ræða frumvarp sem varðar sex lagabálka sem heyra undir velferðarnefnd. Málið hefur aldrei komið til velferðarnefndar. Það varðar títtnefnd komugjöld á sjúkrahús, grundvallarbreytingar á fæðingarorlofslögunum og brottfall laga, hvorki meira né minna. Reyndar sé ég í nefndaráliti að hætt er við að fella brott ein af lögunum sem heyra undir velferðarnefnd, en ég krefst þess að fá tækifæri til að ræða þetta mál hér.

Hér er ég jafnframt með nefndarálit meiri hlutans í fjárlaganefnd þar sem eru nær 100 breytingar sem varða velferðarmál og ég vil fá að undirbúa mig undir þá umræðu sem hefst kl. 10.30 í fyrramálið og fer fram á það með mjög málefnalegum hætti að forseti taki tillit til þess í fundarstjórn.