143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að skipulagið á þinginu er dapurlegt þegar ég ræði þetta stóra mál. Klukkan er 23.50 en ég mun þó ekki valda virðulegum forseta eða öðrum hv. þingmönnum sem hér sitja vonbrigðum og fjalla um þessi mál. Kannski þarf að fjalla um þau meir á morgun, í dagsbirtu svo að skilaboðin komist til skila. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta að ég tel að þetta snúi að því hversu gríðarlega seint fjáraukalagafrumvarpið kom fram og hversu gríðarlega seint breytingartillögur við það komu fram þannig að fjárlögum þurfti því miður að fresta. Mér þykir þetta sérstaklega bagalegt.

Nú ætla ég að fara að ræða fæðingarorlof og mikilvægi þess að við séum með jafnan rétt foreldra. Þá er sérstaklega dapurlegt að taka þátt í slíku skipulagi þegar vitað er að þessu hefði mátt afstýra. Það er ekki eins og hér hafi verið slíkur aragrúi mála á dagskrá að þetta hafi verið óhjákvæmilegt. Eins og ég benti á áðan þá hefur ekki verið hægt að halda hér uppi vinnu frá níu til fimm því að það hefur ekki verið nóg af málum á dagskrá, en núna skal hins vegar vinna með þessum hætti. Eins og ég segi, ef nóg hefði verið á dagskrá mundi ég ekki standa hér nú og gera athugasemd enda hef ég ekki gert það þegar kvöldfundur hefur verið og hef yfirleitt greitt fyrir þingstörfum.

En þá ætla ég að ræða málið sem ég þarf kannski að halda nokkrar ræður um og vonandi einhverja í dagsbirtu. Fyrst langar mig að gera að umræðuefni það sem snýr að fæðingar- og foreldraorlofi. Ég átti ágætisorðastað við hv. þm. Guðbjart Hannesson hér áðan. Ég vil taka það líka fram að hér hafa verið ágætar umræður og framsögumaður málsins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, hefur veitt andsvör og tekið þátt í virkum umræðum um málið sem hefur verið áhugavert. Hins vegar verð ég að segja að það hafa ekki komið fram fullnægjandi rök fyrir þeim breytingum sem þarna eru lagðar til á þeirri áætlun að lengja fæðingarorlof. Meiri hlutinn hefur sem sagt ákveðið að falla frá hugmyndum um að lengja fæðingarorlof um einn mánuð og kýs að fara þá leið að hækka lítillega greiðslur í fæðingarorlofi. Í nefndaráliti meiri hlutans er bersýnilegt að í raun og veru eru ekki nein haldföst rök fyrir þessari forgangsröðun. Það er tilfinning og jafnvel skoðun hv. þingmanna að þeir vilji forgangsraða með þessum hætti. Því er varpað upp að það kunni að verða til þess að fleiri feður nýti fæðingarorlofsréttinn en það geti líka verið ýmsar aðrar ástæður eins og staðan almennt á vinnumarkaði.

Eins og ég benti hv. þm. Pétri H. Blöndal á fyrr í kvöld þá hef ég til að mynda gengið í gegnum þetta ferli þrisvar á síðastliðnum örfáum árum og tekið fæðingar- og foreldraorlof sem þingmaður, ráðherra og líka sem verktaki á almennum vinnumarkaði áður en ég hóf störf á þessum vinnustað sem við köllum stundum Alþingi Íslendinga. Það er alveg ljóst að það eru margar aðrar breytur, ekki síst staðan á vinnumarkaðinum. Það kom fram áðan í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, sem gegndi embætti hæstv. velferðarráðherra í síðustu ríkisstjórn, að það hefði verið áberandi hve þátttaka feðra í fæðingarorlofi rýrnaði á árinu 2009 þegar hvað mest óöryggi var á vinnumarkaði. Í nýlegri skýrslu sem hæstv. núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti á jafnréttisþingi á dögunum, þar sem ég sat, kemur fram að þetta séu í raun og veru ekki næg gögn til að draga þær ályktanir af að það sé endilega tekjumarkið sem ráði þessum breytum. Því tel ég þessa breytingu ekki byggða á nægum forsendum.

Það er alveg eðlilegt að hv. þingmenn hafi misjafnar skoðanir á þessu máli. Sumir hv. þingmenn telja eðlilegra að hækka mörkin og var tekist á um það þegar ákveðið var að lengja fæðingarorlofið. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að lenging fæðingarorlofs sé mjög brýn, því miður. Ég vil taka það fram að fæðingarorlofslögin eins og þau eru voru alveg gríðarlegt framfaraskref rétt eins og aðrar réttarbætur sem við höfum séð. Þau eru til marks um það hvernig stjórnvöld geta haft gríðarlega jákvæð áhrif á stöðu vinnumarkaðar því að þau skipta verulegu máli hvað varðar að auka hlut feðra í uppeldi barna sinna og þar með að rétta hlut karla og kvenna á vinnumarkaði.

Ég get nefnt annað dæmi sem er mjög merkilegt. Það snýr ekki að lagasetningu heldur að því þegar Reykjavíkurborg hóf í tíð Reykjavíkurlistans að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík. Það er svo merkilegt að þegar vinnumarkaðsrannsóknir eru skoðaðar þá sést að á þessu árabili 1994–2000, þegar leikskólaplássum fjölgar markvert í Reykjavíkurborg, breytist atvinnuþátttaka kvenna. Þannig var það. Það voru beinar aðgerðir þáverandi stjórnvalda sem breyttu því. Það kom á daginn að annars vegar jókst almenn atvinnuþátttaka kvenna og hins vegar fóru mun fleiri konur að vinna full störf í staðinn fyrir hlutastörf sem hefur gert það að verkum að íslenskur vinnumarkaður er síður kynjaskiptur en vinnumarkaðir annars staðar á Norðurlöndum.

Hér er rætt um fjármuni en það er líka gríðarleg fjárfesting í því að búa foreldrum þannig aðstæður að það sé hvetjandi að eignast börn því að þjóðin er að eldast eins og við vitum. Við Íslendingar höfum átt því láni að fagna að hér fæðast tiltölulega mörg börn. Ef við viljum hvetja foreldra til þess að eignast börn þurfum við að hafa samkeppnishæft umhverfi hér miðað við önnur lönd. Eitt af því sem er til umhugsunar er fæðingarorlof annars staðar á Norðurlöndunum — þar hafa menn litið hingað hvað varðar reglur á milli kynjanna þegar kemur að því að taka foreldra- eða fæðingarorlof. En við þurfum að líta til þeirra þegar kemur að lengd þessa orlofs því að það er algjörlega ljóst að lengd þess er mjög víða vandamál.

Ég veit að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið að ræða þingsályktunartillögu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og fleiri hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um hvernig eigi að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólavistar. Ég held að það sé mál sem við þurfum að horfa til í sambandi við hvernig við leysum það með samtali sveitarfélaga og ríkis. (UBK: Það er búið að afgreiða málið út úr nefnd.) Er búið að afgreiða málið út úr nefnd? Það er búið að afgreiða málið út úr nefnd (UBK: … umræðu …) sem er fagnaðarefni. Þetta kemur fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur.

Um þær áherslubreytingar sem koma fram í frumvarpinu er meiningarmunur. Þetta er auðvitað mál, eins og ég sagði, sem verðskuldar heilmikla umræðu um málefni fæðingarorlofs.

Síðan eru það skráningargjöld í opinbera háskóla. Það er mál sem ég lofaði hv. þm. Pétri H. Blöndal að ræða hér aðeins. Málið hefur verið talsvert rætt hér í kvöld. Það sló mig raunar í umræðum fyrr í dag þegar rætt var um að nemendur hér á landi greiddu aðeins lítinn hluta náms- og kennslukostnaðar. [Háreysti í þingsal.] Skráningargjöldin hafa ekki verið hugsuð sem gjöld fyrir náms- eða kennslukostnað heldur sem gjöld fyrir skilgreindan kostnað fyrir að halda úti tölvukerfi fyrir þessa nemendur sem lýtur að ákveðinni ytri umgjörð …

Virðulegi forseti. Ætli ég geti fengið þögn í salinn? (RR: Já, virðulegur þingmaður.) Takk.

… námsins, sem lýtur að innritun. Þetta snýst ekki um náms- og kennslukostnað. Skráningargjöldin eiga nefnilega ekki að snúast um að greiða þann kostnað. Þau hafa aldrei verið skilgreind þannig. Þess vegna spratt kannski upp sú einkennilega umræða sem var hér fyrr í kvöld um muninn á skráningargjöldum og skólagjöldum. Ég tel að það hljóti að vera ákveðinn munur þarna á. Mér finnst mikilvægt að við höldum til haga því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi í þeirri umræðu, sem er mjög merkilegt, að hér væri hátt brottfall úr háskólum. Það er mjög áhugavert, það er rétt. (PHB: 38%.)

Við skulum þá horfa til annarra Norðurlandaþjóða því að það er nefnilega svo merkilegt að þar eru engin skráningargjöld og engin skólagjöld heldur í opinberum skólum, í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Þar er hins vegar miklu minna brottfall úr háskólum. Ég hlýt því að draga þá ályktun að ekki sé bein tenging þarna á milli, að ekki sé bein tenging á milli þess að greiða skráningargjald og þess að vera nægilega skuldbundinn því að vera í námi að maður haldist í námi og flosni ekki upp úr því. Það er auðvitað umhugsunarefni að hér hefur ekki verið mikil stýring á námi á háskólastigi. Hér hefur verið nokkuð mikið frelsi í því hvaða nám nemendur velja sér og í hvaða skólum. Það má segja að á Íslandi hafi háskólar verið í samkeppni um nemendur þegar víðast hvar annars staðar eru nemendur í samkeppni um að komast í háskóla. Hér er önnur staða. Ég ætla ekki að gagnrýna það. Þetta snýr að því að hér var farið í tilteknar aðgerðir til að efla háskólastigið til að fjölga nemendum. Því hafa fylgt kostir en því hafa líka fylgt vaxtarverkir og það gerir að verkum að við, ólíkt til að mynda öðrum Norðurlandaþjóðum, erum ekki með stýringu á námi þar sem stjórnvöld greiða fyrir tiltekinn fjölda plássa í hverri grein sem þýðir að nemendur komast ekki endilega í þann skóla eða í það fag sem þeir ætluðu sér. Þar af leiðandi er samkeppni um plássin, sem er önnur staða en hér. Þetta ætti að vera umhugsunarefni þegar við ræðum um brottfall. Lengi vel var hvað minnst brottfall á háskólastigi í Kennaraháskóla Íslands þar sem var inntökupróf, á þeim tíma. Það er umhugsunarefni. Þá þurftu nemendur að ganga í gegnum ákveðið ferli við það að fara í námið, þurftu að hugsa: Langar mig að fara í þetta nám? Kannski er það eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við tökum inn í skólana. Þarf að vera meiri stýring á plássum í háskólanám? Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga í þessari umræðu að brottfall þarf alls ekki að vera beintengt gjöldum. Það nægir að nefna bara þau dæmi sem ég hef nefnt hér.

Það sem stingur í augu við skráningargjöldin er að þau renna ekki til skólanna heldur eru þau í raun og veru notuð til að koma á móti niðurskurði á háskólastiginu. Hér hefur margoft verið sagt: Það vantar peninga í ríkissjóð. Við erum öll sammála um það. Við erum hins vegar ekki sammála um leiðir. Ég hefði til að mynda talið eðlilegra að fara þá leið að leggja á hið sérstaka veiðigjald, að lækka það ekki, fremur en að skattleggja stúdenta. Þetta er bara val og ólíkt val en það þýðir ekki að setja þetta upp sem einu leiðina í boði til að afla tekna, sérstaklega í ljósi þess að skráningargjaldið var hækkað fyrir fjárlög 2012. Þá var það hækkað úr 45 þús. kr., það var hækkað í 45 þús. kr. árið 2005 og hafði þá ekki verið hækkað alllengi. Það var svo hækkað í 60 þús. kr. árið 2012 og fylgdi þá verðlagsþróun að beiðni skólanna. Þeir hafa lagt fram beiðni núna og telja sig geta sig sýnt fram á þennan raunkostnað en þá erum við aftur komin í undarlega hringferð því að skólarnir fá ekki greidd þessi gjöld til að standa undir þessum kostnaði. Mér finnst mjög eðlilegt að stúdentar mótmæli þessari ráðstöfun, þeir gerðu það ekki 2012 á þeim forsendum að þá skiluðu tekjurnar sér óskiptar til skólanna og stúdentar sögðu: Gott og vel, það eru rök fyrir því að hækka þetta, það er langt síðan þetta hefur hækkað; þetta á að standa undir tilteknum kostnaði, þetta skilar sér beint til skólanna; það er ekki verið að leggja á gjöld til að við niðurgreiðum hallann á ríkissjóði. Ég geri því verulegar athugasemdir við þetta.

Að lokum langar mig að nefna mál sem kemur fram í frumvarpinu þar sem verið er að breyta lögum um Ríkisútvarpið, sem samþykkt voru í vor. Boðuð er lækkun á útvarpsgjaldi, fram í tímann þó, ekki fyrr en frá og með árinu 2016. Þá kemur auðvitað að þeirri staðreynd að það útvarpsgjald sem landsmenn allir greiða nú, eins og áþreifanlega hefur komið fram í umræðu undanfarna daga, rennur ekki til Ríkisútvarpsins heldur fer það í gegnum ríkissjóð. Við áttum um þetta miklar umræður á síðasta þingi. Mér finnst ástæða til að rifja það upp því að mér finnst í raun og veru tvennt um þetta mál. Í fyrsta lagi þegar útvarpsgjaldið var sett á hér á sínum tíma, 2007 þegar Ríkisútvarpinu var breytt úr opinberri stofnun, afnotadeild Ríkisútvarpsins lögð niður og Ríkisútvarpinu breytt í opinbert hlutafélag í þáverandi stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þá var útvarpsgjaldið markaður tekjustofn. Það var hluti af þeirri umræðu sem fór þá fram, þegar rætt var um tekjuöflun til handa Ríkisútvarpinu, að í raun væri ekki svo mikill munur á útvarpsgjaldinu og afnotagjöldunum sem vissulega kostuðu mikla umsýslu og heila deild af fólki sem sinnti því. Þá var sagt að þetta væri einföldun því að um væri að ræða sérstakt gjald sem ætti að renna í þetta. Þetta var fyrst kallað nefskattur en síðan fóru menn að nota orðið útvarpsgjald í umræðunni. Líklega af því að það er aðeins jákvæðara, en hugsunin var jú sú að þetta væri markaður tekjustofn.

Þegar allt hrundi haustið 2008 var mörkuninni kippt úr sambandi. Ég sýndi því algjörlega skilning því að þá var staðan mjög ógnvænleg fyrir ríkissjóð og miklar blikur á lofti. En þó verð ég að segja, eftir að hafa sýnt þessu skilning, að ég efaðist samt æ meir. Sú ríkisstjórn sem ég sat í afnam þessa mörkun hreint ekki strax. Ég fór að kynna mér, sem þáverandi menntamálaráðherra, stöðu ríkisfjölmiðla eða almannaþjónustumiðla annars staðar og nauðsyn þess að tekjustofn þeirra væri sem gagnsæjastur, að það lægi skýrt fyrir hvað væri borgað og hvernig það rynni til viðkomandi stofnunar. Það er alveg ljóst að fjölmiðill er ekki eins og hver önnur stofnun. Það er ástæða fyrir því að við köllum fjölmiðla fjórða valdið. Það er af því að við ætlum þeim tiltekið hlutverk, tiltekið hlutverk sem samt er miklu erfiðara að skilgreina en hlutverk framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds þar sem mjög skýr lagarammi er og gríðarleg hefð fyrir. Fjölmiðlarnir eru hið óformlega fjórða vald, getum við sagt, sem við erum öll sammála um að skiptir alveg gríðarlegu máli í lýðræðissamfélagi og er hluti af því að tryggja öfluga fjölmiðla að flestra viti, a.m.k. þeirra sem aðhyllast þá viðteknu venju í Evrópu.

Þessi umræða er aðeins öðruvísi vestan hafs því að þar er talið að almannaþjónustumiðlarnir séu ákveðin kjölfesta í öflugum fjölmiðlamarkaði. Þess vegna er ríkisútvarp annars staðar á Norðurlöndum, í Bretlandi og víðar í Evrópu. Nánast alls staðar í Evrópu eru almannaþjónustuútvörp sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Munurinn er bara sá að íslenska ríkisútvarpið hefur verið á auglýsingamarkaði og aflar sér auglýsingatekna en flest ríkisútvörp gera það ekki. Það hefur þó aðeins verið að breytast. Það er umhugsunarefni að sökum efnahagsþrenginga sem ganga nú yfir Evrópu er verið að reka ríkisútvörp víða út á auglýsingamarkað við hávær mótmæli þar. Það má segja að þar sé allt önnur þróun og umræða en er hér.

Einmitt þar sem rekstur ríkisútvarps hefur verið í föstum skorðum hefur líka verið algjörlega skýrt að tekjustofnarnir þurfa að vera gagnsæir. Þeir þurfa að vera fyrirsjáanlegir. Það er liður í því að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Því hefur verið haldið fram að þar sem þetta sé alltaf ákveðið í fjárlögum hvort sem er hafi Ríkisútvarpið í raun ekkert sjálfstæði. Það segir allt um umræðuna; hún hefur ekki náð að þroskast nægilega vel hér á landi. Auðvitað ætti að geta ríkt ákveðin sátt um það að útvarpsgjaldið sé ákvarðað í fjárlögum og að við því verði ekki hróflað. Við ættum að geta sammælst um hvað það eigi að vera og þar með sé ákveðinn fyrirsjáanleiki fyrir almannaútvarp hvernig áætlanir það geri því að það hafi öruggan tekjustofn.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full þörf á því að ræða þetta ítarlegar. Í raun og veru má segja að sú breyting sem er gerð hér sé bara ein af mjög mörgum í þessum bandormi, en þetta er grundvallaratriði í því hvernig við fjármögnum Ríkisútvarpið. Mér finnst ástæða til að minna á að upphaflega átti þessi tekjustofn að vera markaður. Ég veit að það voru hreint ekki allir sammála um það á síðasta kjörtímabili. Ég veit líka að það voru uppi ýmis sjónarmið þvert á flokka. Það voru ekki allir í mínum flokki sammála þessu. Ég vissi til að mynda líka að menn í Sjálfstæðisflokknum höfðu verið sammála þessu, a.m.k. 2007, og höfðu skilning á því að mikilvægt væri að hafa þennan tekjustofn gagnsæjan og sjálfstæðan. Þess vegna batt ég vonir við að við gætum sammælst um að hafa þetta skýrt afmarkað og ná þannig ákveðinni sátt um málið. Það verður að játast að það náðist ekki í minni tíð sem ráðherra og það mun ekki heldur nást núna af því að þessi umræða var tekin með þessum hætti.

Ég hefði viljað að gerð hefði verið atlaga að því að við settumst niður og ræddum þetta mál sérstaklega því að þetta er gríðarlega stórt pólitískt mál. Það varðar í raun ekki aðeins Ríkisútvarpið heldur líka hvert við stefnum með fjölmiðlamarkaðinn sem heild, hvort við viljum hafa hér almannaútvarp og hvernig við viljum fjármagna það. Ég tel að það hefði þurft sérstaka umræðu (Forseti hringir.) umfram þá umræðu að ræða málið innan um allt annað.