143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og mun íhuga það að verða við áskorun hans um aðra ræðu. En hvað varðar skrásetningargjöldin er auðvitað merkilegt í raun og veru að árið 2011, eins og ég nefndi áðan, þegar gjöldin voru hækkuð fyrir árið 2012, studdu stúdentar þá hækkun af því að hún rann til háskólanna. Þau voru auðvitað ekkert ánægð með hana, að sjálfsögðu ekki, því að verið var að hækka á þau gjöld og með það er sjaldnast nokkur maður ánægður. En þau studdu hækkunina á þessum forsendum. Það er mjög eðlilegt að hlýða á mótmæli þeirra nú því að þau átta sig auðvitað á því og hafa verið dugleg við að benda á að þetta verður ekki til þess að bæta stöðu skólanna um nokkurn skapaðan hlut.