143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:22]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get staðfest þessa túlkun hv. þingmanns því að þetta kom fram þegar fulltrúar úr Stúdentaráði komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Þeir tóku það skýrt fram að þeir mundu ekki leggjast gegn hækkuninni ef hún rynni til háskólans og háskólinn nyti hennar. Ég vil þess vegna velta upp spurningu sem er orðin mjög áleitin þegar maður horfir á hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn fer líka með Ríkisútvarpið og hvernig það fer með tryggingagjaldið. Mér finnst vera í gangi einhver tilhneiging til þess að rýra markaða tekjustofna, draga þar með úr tekjujöfnunarhlutverki hins almenna tekjuskattskerfis, grafa undan gæðum opinberrar þjónustu með því að láta fólk fyllast vonbrigðum yfir því að fá ekki þá þjónustu sem það telur sig vera að kaupa með notendagjöldum og koma því þannig fyrir að sífellt stærri og stærri hluti skattbyrðinnar liggi í nefsköttum en ekki í sanngjörnum sköttum þar sem fólk nýtur persónuafsláttar og nýtur fjölþrepaskattkerfis og fær þess vegna að leggja af mörkum (Forseti hringir.) í samræmi við það sem það getur.