143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég tek undir þau sjónarmið sem stúdentar hafa sjálfir lagt á borðið, ef hækka á þessi gjöld og ef sannanleg rök eru fyrir því er eðlilegt að þau renni til háskólanna. Það skiptir máli og að sjálfsögðu er það skaplegra.

Hvað að hinu snýr er það mjög stórt mál sem ég fór aðeins yfir í ræðu minni. Hér er gjarnan umræða um að verið sé að kenna lögfræði og viðskiptafræði á fjórum stöðum. Það er auðvitað af því að við höfum kosið að fara þá leið og ég tel að það hafi verið eðlileg leið að hefja uppbyggingu háskólastigs með því markmiði að fjölga háskólanemum og hvetja í raun vaxtarsprotana áfram. En nú þegar við erum komin á það skeið að háskólastigið hefur vaxið mikið og er, getum við sagt, komið á næsta stig held ég að við eigum að velta fyrir okkur samstarfi milli háskóla. Hv. þingmaður veit að ég er mikil áhugamanneskja (Forseti hringir.) um akademískt frelsi en þá verður á einhvern hátt að ræða í samstarfi stjórnvalda og skóla hvernig nákvæmlega (Forseti hringir.) sú skipting á að vera.