143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi svör en þá langar mig að spyrja að öðru vegna þess að ég sit í efnahags- og viðskiptanefnd sem leggur fram þetta álit. Tvær skoðanir komu fram hjá nefndinni þegar verið var að ræða um Fæðingarorlofssjóð, að hækka þyrfti hámarkið af því að sýnilegt væri að feður færu síður í orlof og það væri til að ná þeim markmiðum sem Fæðingarorlofssjóði hefðu verið sett í upphafi, þ.e. að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hv. þingmaður segir að engin könnun liggi að baki. (Gripið fram í: Jú, jú.) Lá að baki ósk um lengingu fæðingarorlofsins frá 2014 til 2016? Hafði farið fram einhver könnun eða skoðun á meðal fólks í landinu þegar sú ákvörðun var tekin eða er það beint tekið frá Norðurlöndunum?