143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ljúka við að svara fyrra andsvari hv. þingmanns. Þegar ég ræddi áðan um stýringu í greinar var ég fyrst og fremst að benda á sem lið í þeirri röksemdafærslu minni að hún hefur haft áhrif á brottfall. Þar með er ég ekki að segja að ég hafi neinar lausnir eða fullmótaðar tillögur í þessum efnum heldur tel ég þetta fyrst og fremst nokkuð sem sé eðlilegt að ræða.

Hvað varðar fæðingar- og foreldraorlofið er það rétt og ég vitnaði til þess í ræðu minni að þetta hefði verið fyrst og fremst kannski byggt á fyrirmyndum og reynslu annarra landa. Ég nefndi það að rétt eins og önnur ríki hafi verið að sækja til okkar fyrirmynd að því hvernig við skiptum fæðingarorlofi milli feðra og mæðra teldi ég, og síðasta ríkisstjórn taldi það, rétt að horfa til þess hvernig við gætum sótt til þeirra fyrirmynd að lengingu orlofsins enda held ég að enginn neiti því að okkur er vandi á höndum, það kom fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, við að brúa þetta bil (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) en ég man ekki eftir neinni könnun sem var nýtt þar.