143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessa greiningu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Það sem greinir félagshyggjufólk frá markaðsþenkjandi fólki á hægri vængnum er afstaðan til skatta að hluta til, ekki satt? (Gripið fram í: Rétt.) Hægri menn líta á skatta fyrst og fremst sem tekjuöflunartæki. Við á hinn bóginn lítum á skatta sem tekjujöfnunartæki í bland, alla vega er áherslan ríkari í þá veru í okkar búðum en hjá hægri sinnuðu fólki. Alveg eins og kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni þá er þetta munurinn á nefsköttum annars vegar og tekjuskatti hins vegar þar sem búið er að innleiða hinn tekjujafnandi mekanisma inn, persónuafslátt og aðra slíka þætti.

Það sem ég óttast og hef ótta af gagnvart núverandi ríkisstjórn er að hún muni að dæmi hægri sinnaðra ríkisstjórna víðs vegar um Evrópu og víðs vegar um heiminn gera nákvæmlega það sem hv. þm. Árni Páll Árnason talar um, að nota niðurskurð í bland til að innleiða kerfisbreytingar í átt til markaðsvæðingar. Við höfum heyrt það frá ýmsum ráðherrum að þeir vilja láta einkaaðila fjármagna samgöngumannvirki til dæmis, flugvellina, hafnirnar, vegina, það hefur verið nefnt af núverandi hæstv. innanríkisráðherra að gera það. Er það eitthvað slæmt? Þetta er bara pólitísk afstaða sem ég gagnrýni og tel ranga en hún byggir einmitt á þessu sama, að innleiða gjöld frá notandanum.