143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans í þessu máli. Ég held að hann hafi komið að kjarnanum í mjög mörgu.

Það er eitt sem ég hef mjög miklar áhyggjur af og vil þess vegna spyrja og eiga samtal við hv. þingmann um það því að hann hefur fylgst lengi með kjaraþróun í samfélagi okkar, staðið í kjarabaráttu og verið talsmaður launafólks á Íslandi. Það er að mér sýnist þessi ríkisstjórn vera að taka mjög skarpa beygju í átt að samfélagi ójöfnuðar. Við sjáum það m.a. í því að verið er að lækka skatta á millitekjuhópinn, ókei, við erum svo sem ekki beinlínis á móti því, en á móti er síðan verið að auka gjaldtöku hjá námsmönnum, hjá sjúklingum og við sjáum fleiri og fleiri dæmi. Jafnframt er verið að taka nefskatt hjá RÚV til að nota í ríkisreksturinn en ekki til reksturs Ríkisútvarpsins o.s.frv. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvert hann sjái þetta allt saman leiða.

Hv. þingmaður hélt hér mjög mikilvæga ræðu um Ríkisútvarpið og ég er honum hjartanlega sammála um það sem hann segir þar. Mig langar að spyrja hann: Ef Ríkisútvarpið væri ekki ohf. telur hv. þingmaður að uppsagnirnar og aðferðafræðin þar — hv. þingmaður lýsti svo ágætlega hvernig mönnum var hent út samdægurs og tölvunum lokað — hefðu verið með sama hætti ef Ríkisútvarpið hefði áfram verið hefðbundin ríkisstofnun?