143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem í andsvar við hv. þingmann vegna þess einfaldlega að mér ofbauð hvernig hann talaði til okkar sem erum í Sjálfstæðisflokknum í sambandi við RÚV. Það kann að vera að stjórnmálamenn fyrri tíðar hafi verið þeirrar gerðar að þeim hafi þótt í lagi að kalla starfsmenn Ríkisútvarpsins eða annarra ríkisstofnana heim til sín og hundskamma þá, en ég þekki satt best að segja ekki slíka stjórnmálamenn. Ég hef aldrei unnið með slíkum stjórnmálamönnum og ég er ekki þannig stjórnmálamaður.

Ég get sagt það við hv. þm. Ögmund Jónasson að ef ég hefði verið í sporum útvarpsstjóra þá hefði ég farið öðruvísi að vegna þess að í mínum huga ætti fyrst og síðast að horfa til þess sem er á Rás 1 í Ríkisútvarpinu og mætti því frekar hverfa frá ýmsu sem er á Rás 2 áður. Það sem stendur menningu okkar nær er flestallt á Rás 1.

Þar að auki er ég hjartanlega sammála þingmanninum hvað varðar aðferðafræði uppsagnarinnar sem var í þessu tilviki ómanneskjuleg og hefði ekki þurft að vera með þeim hætti. En það er ekki við okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins að sakast heldur útvarpsstjóra. Hann er útvarpsstjóri og hann er yfirmaður Ríkisútvarpsins og ákvörðunin er hans, að taka þannig til orða eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir og segja þingmenn sem ekki mótmæla eða andæfa uppsögnum útvarpsstjóra á Ríkisútvarpinu samseka í einhverri aðför (Forseti hringir.) er hundgömul og hallærisleg pólitík.