143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist undir umræðunni rétt áðan þegar farið var svona harkalega af formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins í hv. þm. Ögmund Jónasson vegna ummæla hans hér. Það hefur verið alveg ljóst að hv. þingmaður ber hag Ríkisútvarpsins mjög fyrir brjósti. Honum svíður hvernig hefur verið komið fram við starfsfólk þar, sem sagt hefur verið upp, og hélt um það mjög innihaldsríka og góða ræðu áðan. Þá var hv. formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins hvergi að sjá, sem fór síðan mikinn hér og ákvað með talsverðu yfirlæti að mínu mati að skamma hv. þingmann og kalla hann dónalegan, sem hún gerir hér reyndar daglega, það er bara mismunandi hver það er hverju sinni.

Ég held, virðulegi forseti, að ef menn tækju þessa umræðu við okkur almennilega og málefnalega þyrftu svona uppákomur ekki að eiga sér stað. Ég held að hæstv. forseti ætti að leggja það til að stjórnarþingmenn sætu hér og (Forseti hringir.) fylgdust með umræðum en kæmu ekki inn þegar þeim hentaði í einhvern svona skæting til að kalla aðra dóna.