143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og þetta mál er henni auðvitað mjög svo skylt, því langar mig að ræða aðeins við hana um þann hluta sem snýr að nýsköpuninni og stuðningi við hana og þessa vaxtarsprota.

Í frumvarpinu erum við með endurgreiðslukerfi vegna rannsókna og þróunarkostnaðar en verið er að veikja það í þessum tillögum. Síðan erum við með Tækniþróunarsjóð og uppi eru áform hjá ríkisstjórninni um að skerða hann allverulega á næsta ári og sama á við um Rannsóknasjóð og markáætlanir og svona mætti lengi telja, meira og minna allt sem kemur að nýsköpun, uppbyggingu og stuðningi við hugvitsgeirann og síðan líka skapandi greinar. Við erum að tala um Kvikmyndasjóð o.s.frv. Þetta á allt saman að veikja.

Þetta er augljóslega stefnumörkun ríkisstjórnarinnar en búið var að leggja þá línu í fjárfestingaráætlun að taka undir með McKinsey-mönnum og þeim sem hafa talað fyrir því að við byggjum undir þéttan vöxt til framtíðar litið með því að styðja við skapandi greinar og hugvitsgreinar til þess að styrkja útflutning okkar. Ég vil því spyrja hv. þingmann, af því að hún situr í fjárlaganefnd, hvort nefndin hafi í fyrsta lagi tekið þetta allt saman, þ.e. hversu mikið í heildina er verið að veikja stuðning við nýsköpun og skapandi greinar. Og síðan í öðru lagi hvort menn hafi látið reikna áhrifin af þessari veikingu á kerfinu á hagkerfið og síðan ríkissjóð vegna lægri skatttekna.