143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Til að byrja á að svara því sem hún tók fram í lokin þá hefur það nefnilega ekki verið reiknað út mér vitanlega, ekki verið borinn á borð fjárlaganefndar neinn útreikningur varðandi tekjutap ríkissjóðs í rauninni vegna þessara greina. Fjárhæðirnar eru miklar sem verið er að skera niður en framlögin eru auðvitað smámunir í samanburði við það, eins og ég las upp og fór með áðan, vitnaði m.a. í Samtök iðnaðarins þar sem kom fram að tugir milljarða skila sér inn í hagkerfið til baka til ríkissjóðs á mjög skömmum tíma, þannig að þar liggur fyrir ákveðin greining.

Við höfum hins vegar ekki fengið þá greiningu neitt sérstaklega og ég er eiginlega nokkuð viss um að fjárlaganefnd eða meiri hluti hennar hefur hana ekki undir höndum. Ég hef trú á því að henni hefði verið dreift ef svo væri. Ég tek undir að það er mjög sérstök forgangsröðun að gera þetta svona. Eins og ég kom inn á áðan leggja önnur lönd til að ekki verði dregið úr skerðingum í þessum geirum, fremur að bæta í. Það er það sem við höfum auðvitað verið að tala fyrir af því að okkur í minni hlutanum finnst það vera skynsamleg ákvörðun í ljósi þess sem fram hefur komið og augljóslega hefur verið að vaxa og hér hefur verið kallað eftir. Ég tel að færð hafi verið ágætisrök fyrir því af hálfu þeirra sem koma að hugverkageiranum, eins og hér var nefnt, og öllum þessum skapandi greinum — ja, það kom nú út góð skýrsla, var það ekki 2010? þar sem sýnt var fram á að þær stæðu jafnfætis sjávarútveginum.