143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að menn hafi ekki metið það, þ.e. áhrifin af þessari veikingu á kerfinu, stuðningskerfinu. Og kannski ekki síst í ljósi þess að helsta atvinnustefnan sem maður hefur heyrt frá nýrri ríkisstjórn er sú að hæstv. iðnaðarráðherra ætli bara að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir Helguvík, kemst svo að því að það eru engar hindranir aðrar en viðskiptalegar hindranir. Við erum að sjá niðurstöðuna úr því í dag.

Þegar ríkisstjórnin er búin að missa fyrirtækið sem hún hafði hengt alla sína framtíðarsýn í atvinnuuppbyggingu á og er síðan líka að veikja þetta kerfi, þ.e. stoðkerfi nýsköpunar og skapandi greina, þá stendur mjög lítið eftir. Ég held og ætla eiginlega að skora á hv. þingmann að taka þetta upp í fjárlaganefnd, þ.e. hvaða forsendur búi að baki vaxtarspám sem tekið er mið af í fjárlagafrumvarpinu, (Forseti hringir.) hvort þetta tvennt sé ekki að hafa veruleg áhrif þar á.