143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir mjög margt sem hv. þingmaður sagði, meðal annars að það væri óskandi að við gætum verið lengur heima með börnunum okkar. Ég vil síður verðleggja þau þó að það sé auðvitað það sem við erum alltaf að gera og tala um, þ.e. ýmist hvort Fæðingarorlofssjóður stendur undir útgjöldum eða sveitarfélögin varðandi dagvistun. Vissulega er það áhugaverð hugmynd ef hægt væri að framkvæma hana að báðir foreldrar færu út í atvinnulífið í einhvern tíma, eins og hv. þingmaður var að benda á, og væru í skertu starfshlutfalli. En við vitum og það sýna rannsóknir, því miður, eins og hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðu sinnar að karlmenn tækju síður frí vegna launaþáttarins. Þessi hugmynd um foreldraorlof sem hv. þingmaður hefur viðrað og ég man að ég hlustaði á hann ræða hana einmitt í tengslum við fæðingarorlofsfrumvarpið síðast, að ég held, er áhugaverður punktur og gaman og gott að ræða. En ég hef áhyggjur af því að það yrði til þess að við mundum hjakka áfram í sama fari og konur héldu áfram að fara í skert starfshlutfall, hefðu þar af leiðandi verri afkomu síðar á lífsleiðinni fremur en að karlar gerðu þetta.

Það má vel vera að það sé ekki rétt. Ég tek undir að við viljum auðvitað öll hafa ungviðið heima og geta verið með því og notið samvista og allt það, og við viljum líka geta notið samvista við fullorðið fólk og tala eitthvað annað en smábarnamál, eins og gjarnan er sagt. Allt þarf þetta á einhverjum tímapunkti að fara saman. Ég held að við náum ekki jafnrétti kynjanna annars vegar og jafnrétti til að njóta samvista við börnin hins vegar nema við komum á fæðingarorlofssjóði sem skyldar foreldra til að taka fæðingarorlofið að jöfnu.