143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér annað tveggja tekjuöflunarfrumvarpa ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlög 2014. Mig langar til að byrja að tala um skattstefnu og skattheimtu yfir höfuð. [Háreysti í þingsal.]

Nú er gjarnan tekist á í þessum stól frá vinstri og hægri um hversu ásættanlegt sé að innheimta skatta. Við á vinstri vængnum viljum innheimta skatta á meðan hægri flokkarnir líta á það sem sérstaka dyggð að geta lækkað skatta. Nú tel ég mikilvægt að það komi skýrt fram að skattheimta er ekki markmið í sjálfu sér. Og að sjálfsögðu — ég vil fá þögn í þingsal, herra forseti. Þetta er óþolandi (Forseti hringir.) þegar maður loksins kemst hér að.

Skattheimta er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið með skattheimtu er að við höfum skilvirkt kerfi sem aflar tekna fyrir ríkissjóð og hefur tekjujöfnunarhlutverk. Þar liggja áherslur okkar vinstri manna, á skilvirka öflun tekna og tekjujafnandi hlutverk þeirra.

Í hvað nýtum við skattana okkar? Við nýtum skattana okkar í opinbera þjónustu, mikilvæga þjónustu á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, löggæslumála og ýmissa annarra samgöngumála, og í alla þá málaflokka sem eru mikilvægir til að halda góðu samfélagi gangandi. Við notum skattana okkar í tilfærslur eins og almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlof. Þessi tilfærslukerfi hafa skipt sköpum fyrir framfærslu íbúa þessa lands á síðustu árum. Síðast en ekki síst nýtum við skatttekjur ríkissjóðs til fjárfestinga — fjárfestinga sem skila arði, til þess að auka velsæld og skapa atvinnu í landinu.

Mér finnst mikilvægt að við höfum þetta á hreinu þegar við ræðum fjármál ríkisins. Tekjujöfnunin er mikilvæg, en hún fer ekki eingöngu fram í gegnum tilfærslur heldur skiptir samneyslan gríðarlegu máli. Fyrir ýmsa hópa sem eru tekjulágir, hvort sem það er vegna veikinda, langvarandi veikinda eða vegna þess að fólk er í lágtekjustörfum, svo sem konur í umönnunarstörfum um allt land, þá er gjaldfrjáls eða ódýr almannaþjónusta lykillinn að velferð fólks. Það býr til samkennd í samfélagi að við deilum kjörum þegar kemur að almannaþjónustu, að við höfum öll sama aðgengi óháð efnahag og að við greiðum síðan skatta í hlutfalli við tekjur okkar. Eins og Karl Marx orðaði það greiðum við eftir getu og þiggjum eftir þörfum. Það er falleg hugsjón og fyrir henni mun ég tala svo lengi sem ég verð á Alþingi og vonandi lengur en það.

Þá komum við að þessu frumvarpi. Það tekur til sex lagabálka sem heyra undir velferðarnefnd, þá nefnd sem ég stýri og fjallar um málaflokka sem mér er mjög annt um og reyndar held ég flestum þingmönnum hér inni.

Þessir lagabálkar í frumvarpinu, svo að við förum nú yfir þá, ég ætla að einbeita mér að þeim, eru:

Breytingar á lögum um málefni aldraðra sem varðar framkvæmdasjóð og velferðarnefnd þarf því ekkert að ræða þann nefskatt sérstaklega, hann er færður upp til verðlags og það þarf enga sérstaka fundi í velferðarnefnd til þess að færa gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra upp til verðlags.

Síðan komum við að breytingum á lögum um rekstur umboðsmanns skuldara. Það er verið að skera niður verulega í því embætti. Mér finnst ákaflega einkennilegt að við í nefndinni höfum ekki fengið þetta mál til umfjöllunar þar sem við sátum sólarhringum saman við að smíða lög um greiðsluaðlögun og umboðsmann skuldara. Það hefði verið eðlilegt að nefndin fengi að fylgja því starfi eftir og fara yfir þær forsendur sem liggja til grundvallar á lækkuðum framlögum til umboðsmanns skuldara. Ég ætla ekkert að segja um þá lækkun á framlögum, hvort hún er rétt eða röng, því að ég hef enga aðkomu haft að umræðu um þau mál. En ég veit eitt, það þarf að gera breytingar á þessari grein því að í gær greiddum við fyrir því að hægt væri að afgreiða frumvarp þar sem gert er ráð fyrir auknum útgjöldum umboðsmanns skuldara og þá þarf líka að innheimta tekjur frá fjármálastofnunum til að fjármagna þau útgjöld til þess að greiða tryggingu fyrir fólk í gjaldþrotaskiptum.

Svo komum við að lagabálkinum um fæðingar- og foreldraorlof. Í vor sem leið breytti velferðarnefnd þessum lögum og lengdi fæðingarorlofið og hækkaði hámarksþakið um 50 þús. kr. Það er smekklega um það fjallað í fjárlagafrumvarpinu og sagt að á einu ári hafi greiðsluþakið á fæðingarorlofi hækkað um 23%, en látið vera að geta þess að megnið af þeirri hækkun hafi komið frá fyrri ríkisstjórn.

Hætt er við lengingu á fæðingarorlofi. Okkur í velferðarnefnd hefur ekki gefist kostur á að koma að vinnslu við þessa styttingu, en ég les hér alls kyns dogmatíska nálgun um það að feður vilji ekki fara í fæðingarorlof af því að tekjur þeirra lækki og þetta sé svo vont fyrir tekjuháa karla og hvað veit ég.

Þá spyr ég: Af hverju var ekki leitað til nefndarinnar? Þegar við í þáverandi félags- og tryggingamálanefnd fengum það óskemmtilega hlutverk að lækka þakið á fæðingarorlofi af því það var ríkulegasta tryggingakerfið þá óskuðum við jafnframt eftir skýrslu um áhrif lækkunar þaksins á töku fæðingarorlofs. Það hefði verið ágætt í vinnslu þessa máls og þarf að gerast hér á milli umræðna að kynna sér efni þeirrar skýrslu. Ákveðnir lagabálkar eru á málefnasviðum tiltekinna nefnda því að þær afla sér sérþekkingar á þeim. Í skýrslunni er tekið fram og farið yfir og stutt með tölfræðilegum gögnum að mesta fækkunin hjá körlum í töku fæðingarorlofs væri í tekjuhópunum 200–300 þús. kr. og 300–400 þús. kr. Hvað er síðan sagt? Á bls. 25 í skýrslunni sem þáverandi velferðarráðherra lét vinna að beiðni nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Án þess að unnt sé að fullyrða það með ákveðinni vissu þykja líkur benda til að þær efnahagslegu forsendur, sem breyttust hjá mörgum fjölskyldum í landinu í kjölfar efnahagsþrenginganna haustið 2008 sem og sú óvissa sem hefur ríkt á vinnumarkaði frá þeim tíma, kunni að hafa haft meiri áhrif á töku fæðingarorlofs feðra í framangreindum tekjuhópum en lækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.“

Ef vilji meiri hlutans stendur til að stytta eða hætta við lengingu fæðingarorlofs væri heiðarlegra að segja að þetta væri sparnaðaraðgerð og reyna ekki að klæða það í búning jafnréttis.

Jæja, þá er ég búin með málaflokkinn fæðingar- og foreldraorlof. Kemur þá næsti lagabálkur sem undir nefndina heyrir. Þar erum við að tala um brottfall laga „um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks“. (RR: Nei.) Jú, í frumvarpinu heitir það það. (Gripið fram í: Það er verið að halda því …) Í frumvarpinu heitir það það, hvorki meira né minna. Heyrið. Nú skulum við fara yfir þetta mál. (Gripið fram í.) Fyrir ári síðan … (Gripið fram í.) Herra forseti. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Herra forseti. (RR: … nefndin breytti því og …) Herra forseti. (Forseti hringir.) Það er ég sem er hér að halda ræðu. (Gripið fram í: En skemmtilegt.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að trufla ekki ræðumann.)

Samkvæmt frumvarpinu á bls. 6 stendur: Brottfall laga. Svo ég fari hér yfir það, hafandi setið í velferðarnefnd um tíma, þá fórum við einmitt inn í þennan lagabálk fyrir ári og gerðum umtalsverðar breytingar. Það hefði verið ágætt að við sem erum nýlega búin að vera að vinna með þessi lög og ræða við alla þá aðila sem þar að koma og þurftum að kynna okkur málefnið nokkuð rækilega hefðum fengið að fjalla um það líka. Síðan kemur í ljós að það hentar ekki að fella lögin úr gildi. Gerðar voru ákveðnar breytingar á dögum og í ljós kemur, af því þetta frumvarp var augljóslega unnið án samráðs við rétta aðila, að það er verið að vinna með málið á vettvangi kjarasamninga.

Svo koma nýir lagabálkar velferðarnefndar. Þá fara aldeilis að æsast leikar. Þá komum við að komugjöldum á sjúkrahús. Þar er farið inn í sjúkratryggingalöggjöfina. — Það er nú ágætt að hér gengur fram hjá hv. þm. Ögmundur Jónasson. — Þar er verið að fjalla um komugjöld á sjúkrahús, í frumvarpinu eru legugjöld og því breytt í komugjöld. Án þess að ég ætli að fara hér út í prinsippumræðu um það að taka gjöld fyrir það að fólk leggist inn á sjúkrahús þá er ég afar ósátt við að þessi breyting sé lögð til á þeim tíma sem verið er að skoða greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskostnaði. Við hljótum að setja okkur metnaðarfull markmið um það að sjúklingar séu með sem lægsta þátttöku í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Við hljótum að setja okkur markmið um það til langs tíma og hvernig við ætlum að ná þeim. Mér finnst þessi tillaga vera beinlínis til þess gerð að ögra minni hlutanum í þinginu og koma í veg fyrir að hægt verði að ná sátt í málinu, máli sem er mjög mikilvægt. Það eru ekki miklir fjármunir sem á að ná inn með þessum hætti en þeir munu svo sannarlega vera alvarleg stefnubreyting og koma mjög illa við þá sem málið snertir, fyrir utan það að lægri gjöld eiga að vera á ýmsa hópa. Það er mjög erfitt að sjá það en þetta hlýtur að verða töluvert hátt gjald.

Það hefði verið ánægjulegt að fá að ræða þetta í velferðarnefnd sem fjallar einmitt oft um lög um sjúkratryggingar og heilbrigðiskerfið.

Herra forseti. Nú kem ég að síðasta lagabálkinum. Einhvern veginn finnst mér að ég hafi misst af einhverju hérna en þetta atriði bættist við í meðförum nefndarinnar. Ég biðst velvirðingar. Forseti verður að virða mér það til vorkunnar að það er nokkuð erfitt að fylgjast með vendingum í fjárlagagerðinni því að það er alltaf að gerast eitthvað óvænt og nýtt. Síðasti bálkurinn er um slysatryggingar og lögboðnar ábyrgðartryggingar. Hér er verið að breyta tryggingavernd fyrir fólk á leið til vinnu. Þetta var ekki í frumvarpinu en um er að ræða tvær stórkostlegar lagabreytingar á nýjum lagabálkum sem koma inn við 2. umr. Á því sem ég hafði lesið mér til um í fjárlagafrumvarpinu á sínum tíma og spurst fyrir um sé ég að gerðar hafa verið einhverjar breytingar. Þangað til í 3. umr. verð ég bara að vona að breytingarnar séu í þágu þeirra sem verða fyrir slysi á leið sinni til eða frá vinnu, en ég hef ekki alveg náð að átta mig á því.

Ég skil ekki af hverju þetta frumvarp, sem fjallar um ýmsa lagabálka sem hafa ekkert með efnahags- og viðskiptanefnd sérstaklega að gera, eða þættir í því sem varða velferðarmál voru ekki sendir í einum sérstökum bandormi. Velferðarnefnd hefði getað fjallað um þá og sent til umsagnar hjá efnahags- og viðskiptanefnd því að sjálfsögðu eru þessi kerfi mjög veigamikil í útgjöldum ríkissjóðs. Ég geri mér grein fyrir því og hef þurft að stunda þar niðurskurð. En það er mjög mikilvægt að gætt sé að því hvernig þessir málaflokkar eru meðhöndlaðir. Ég skil ekki af hverju við fengum þetta mál ekki til umsagnar í nefnd. Hér er um veigamiklar breytingar að ræða, fyrir utan það að sumar þeirra eru nú þegar úreltar í ljósi þeirra breytingartillagna sem hv. fjárlaganefnd hefur gert á útgjaldahliðinni.

Ég held að ég verði að fara fram á það að við í velferðarnefnd fáum að fjalla um þessi mál áður en þau verða tekin til atkvæðagreiðslu og að einhver virðing verði borin fyrir málefnasviðum nefnda innan Alþingis. Hér er iðulega komið til manns hlaupandi á göngunum og spurt sko: Hvar á þetta mál heima? Er þér sama? Ég er aldrei í slagsmálum um mál. Ef vafi leikur á hvar mál eiga heima og ráðherrar hafa sérstakar væntingar hef ég ekki sem formaður velferðarnefndar verið að taka einhver rifrildi um það að taka mál inn í nefndina í óþökk ráðherra. En þegar lagabálkarnir heyra beinlínis undir nefndina er lágmark að við fáum þá til umfjöllunar. Annars held ég að ástæða sé til að endurskoða þingsköpin. Þetta er markleysa, herra forseti.

Ég hef lokið mér af í bili. Ég ætlast til þess að velferðarnefnd fái að fjalla um þessi mál á milli umræðna. Síðan í 3. umr. gefst aftur tækifæri til að fara yfir málin.